Líklegt að ríkið myndi bera kostnað við niðurfellingu skulda

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands segir, að telja verði líklegast, að kostnaður af almennum skuldaniðurfellingum, verði gripið til þeirra, lendi að langmestu leyti á ríkinu. 

Þetta kemur fram í nýrri greinargerð stofnunarinnar um afföll bankanna við stofnun nýju bankanna og kostnað við niðurfærslu lána. Er greinargerðin unnið að beiðni ríkisstjórnarinnar í kjölfar þess að formaður Hagsmunasamtaka heimilanna afhenti forsætisráðherra undirskriftalista í október með nöfnum 33.525 einstaklinga sem kröfðust  í nafni almannahagsmuna almennra og réttlátra leiðréttinga á stökkbreyttum lánum heimilanna og afnáms verðtryggingar.

Hagfræðistofnun áætlar, að munur á kröfuvirði lánasafna gömlu bankanna þriggja, sem féllu haustið 2008, og því verði sem nýju bankarnir greiddu fyrir lánasöfnin, sé um 95 milljarðar króna á verðlagi í október 2008.

Stofnunin segir að þegar hafi verið gripið til margvíslegra aðgerða til þess að lina erfiðleika skuldara en þær leiðir, sem Hagsmunasamtök heimilanna fari fram á, feli í sér mikla höfuðstólslækkun lána til viðbótar við það sem þegar hafi verið gert.

Áætla megi að hreinn kostnaður við leiðina, sem felur í sér flata 18,7% niðurfærslu allra íbúðarlána til viðbótar við það sem þegar hafi verið gert, sé um 200 milljarðar króna sem svari til 37% af áætluðum gjöldum ríkissjóðs árið 2012. Í tillögum Hagsmunasamtakanna sé gert ráð fyrir að þessi kostnaður lendi fyrst og fremst á bönkum og þeim innistæðueigendum sem eigi meira en 15 milljónir króna á bankareikningi.

„Því hefur verið haldið fram að sækja megi verulegan hluta kostnaðar sem leiðir af tillögum Hagsmunasamtakanna í afslátt sem bankarnir hafi fengið á lánasöfnum sínum haustið 2008. Þetta orkar mjög tvímælis," segir Hagfræðistofnun.

„Í fyrsta lagi virðist kostnaður bankanna af dómum Hæstaréttar um gengislán, 110%-leiðinni og skuldaniðurfellingu af öðrum sökum þegar vera orðinn meiri en nemur afslætti þeirra af lánasöfunum haustið 2008. Í öðru lagi verður ekki séð að það liggi ljóst fyrir að ríkið geti skert lánasöfn fjármálastofnana bótalaust, hvort sem þær eiga fyrir skerðingunni í einhverjum skilningi eða ekki. Svipað hlýtur að gilda um skerðingar á innistæðum. Að auki má minna á yfirlýsingu ríkisstjórnar um ábyrgð á innistæðum sem enn er í gildi. Telja verður því líklegast að kostnaður af almennum skuldaniðurfellingum lendi að langmestu leyti á ríkinu."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert