Þórir Jökull Þorsteinsson hefur ákveðið að gefa kost á sér til embættis biskups Íslands. Þórir Jökull var meðal annars prestur á Selfossi og í Kaupmannahöfn.
Hann segist sannfærður um að framundan séu erfiðleikar sem þjóðkirkjan þurfi að mæta og geti með Guðs hjálp sigrast á með uppbyggilegum hætti.
„Án þeirrar hjálpar er hún auðvitað ónýt. Fátt hefur á síðari árum gert þjóðkirkjusamfélaginu meira gagn sem kirkju en samfelld árás vantrúaðra á hana. Því miður hafa viðbrögð okkar við henni, undir sama sjónarhorni, oftsinnis litast af því viðhorfi að þessar atlögur væru lítið þakkarefni,“ segir í tilkynningu.
„Staða þjóðkirkjunnar sem stofnunar í íslenzka ríkinu er gjarna höfð að skotspæni sem engan skyldi undra því sá tími er liðinn að henni dugi sem trúfélagi að vísa til félagslegra, pólitískra og sögulegra viðmiða einna sem ekki megi víkja frá og láta þar við sitja réttlætinguna. Það er ekki auðvelt að velta um hinu gróna og viðtekna og gerist ekki átakalaust,“ segir ennfremur í tilkynningu sem hann hefur sent frá sér.