Skýrslan mikill áfellisdómur

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Kristinn

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokks, sagði á Alþingi í dag að ef forsætisráðherra teldi skýrslu Hagfræðistofnunnar um skuldavanda heimilanna rétta, þá væri hún mikill áfellisdómur yfir ríkisstjórninni.

Sagði þingmaðurinn að í fyrsta lagi hefði ríkisstjórnin þá gert mikil mistök við stofnun nýju bankanna, sem nú hefðu ekki svigrúm til að færa skuldir frekar niður, að ríkisstjórnin hefði gert mistök varðandi gengisbundnu lánin en svigrúm til skuldaniðurfærslu hefði þá að mestu farið í að bera tjón af því að þau voru dæmd ólögmæt, og að áform ríkisstjórnarinnar um að samþykkja Icesave hefðu sett landið í þrot, þar sem sá kostnaður sem hefði lent á ríkissjóði hefði orðið mun meiri en þeir 200 milljarðar sem það myndi kosta að ráðast í niðurfærslur á skuldum heimilanna.

Forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, sagði bæði Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann, hlutlausa aðila, hafa farið yfir skýrsluna og því hlytu niðurstöður hennar að vera réttar. Spurði hún þingmann á móti hvort hann drægi í efa hlutleysi Hagfræðistofnunar.

Sagði Jóhanna að mikilvægt hefði verið að skera í eitt skipti fyrir öll úr um svigrúm bankanna til afskrifta.

Ríkisstjórnin hefði gripið til umfangsmikilla aðgerða sem þegar hefðu skilað sínu. T.d. hefðu 10 þúsund umsóknir um 110% leiðina verið samþykktar og skuldir lækkaðar um 200 milljarða.

Forsætisráðherra sagði að á botni kreppunnar hefðu 16 þúsund manns sagt stöðu sína slæma og 46 þúsund nokkuð slæma, því væri ekki rétt að segja að 60 þúsund heimili væru gjaldþrota.

Skuldir hefðu minnkað um 10%, vanskil minnkað, fasteignaverð hækkað um 10% á síðasta ári og kaupmáttur launa aukist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert