Helmingur vill viðræður áfram

Höfuðstöðvar Evrópusambandsins.
Höfuðstöðvar Evrópusambandsins. Reuters

Helmingur þeirra sem svöruðu könnun sem unnin var á vegum Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands vill að aðildarviðræðum við Evrópusambandið verði haldið áfram.

37,9% þeirra sem tóku afstöðu vildu hætta viðræðum en 12,1% tók ekki afstöðu, að því er fram kom í kvöldfréttum RÚV.

Spurt var: Hver er afstaða þín til aðildarviðræðna Íslands og Evrópusambandsins? Vilt þú halda aðildarviðræðunum áfram eða hætta þeim?

Þeir sem eldri eru vilja frekar halda viðræðum áfram en þeir sem yngri eru. Karlar eru frekar fylgjandi viðræðunum en konur, og þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu vilja frekar halda þeim áfram en þeir sem búa á landsbyggðinni. Og því meiri menntun og því hærri tekjur sem svarendur höfðu, því frekar vildu þeir halda viðræðum áfram.

Þegar stuðningur við stjórnmálaflokka er skoðaður kemur mikill munur milli hópa í ljós. Rúm 30% kjósenda Sjálfstæðisflokksins vilja halda viðræðum áfram, rúm 90% kjósenda Samfylkingar, 25% framsóknarmanna og rúmlega 55% kjósenda Vinstri grænna, samkvæmt frétt á vef RÚV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert