Reynt að útkljá mál í Kópavogi

Ármann Kr. Ólafsson segir að enginn verði þvingaður í meirihlutasamstarf.
Ármann Kr. Ólafsson segir að enginn verði þvingaður í meirihlutasamstarf. Brynjar Gauti

Ákveðið hefur verið að fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks hittist aftur til að ræða hugsanlegt meirihlutasamstarf í bæjarstjórn Kópavogs.

Að sögn Ármanns Kr. Ólafssonar, bæjarfulltrúa í Kópavogi, finnst sjálfstæðismönnum í Kópavogi allsérstakt að þau skilyrði séu sett að sjálfstæðismenn og Samfylking starfi með Vinstri grænum í meirihluta, sér í lagi þar sem ekki var myndað slíkt kosningabandalag fyrir kosningar. Að hans mati væri eðlilegra að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking mynduðu meirihluta. „Búið er að fara í gegnum þá umæðu og það er ekki lengur möguleiki í stöðunni.“ Aðspurður segir Ármann það á tæru að hann sé ekki í pólitík til að vera í minnihluta og því sé það ekki eitthvað sem hugnist þeim frekar en meirihlutasamstarfið. „En við hlaupumst ekki undan ábyrgð í þessu.“ Að sögn Ármanns mun það skýrast með kvöldinu hvort formlega verði teknar upp meirihlutaviðræður.

Aðspurður hvort um þvingun sé að ræða segir Ármann að svo sé ekki „Ef af samstarfi verður þá tekur enginn þátt í slíku nema hann sé sáttur við það. Annars er betur heima setið.“ Að hans sögn eiga málefnin að vera lögð til grundvallar. „Við erum að reyna að útkljá þessi mál og komast að niðurstöðu. Við ræddum saman lauslega um daginn og erum um þessar mundir að fara í málin af meiri dýpt. Við erum það skammt á veg komin í umræðum að ekki er hægt að benda á eitthvert ákveðið mál sem ekki er hægt að leysa.“

mbl.is