Einn veikasti hlekkur heilbrigðiskerfisins

Guðbjartur segir tannheilsu einn veikasta hlekk í heilbrigðikerfinu.
Guðbjartur segir tannheilsu einn veikasta hlekk í heilbrigðikerfinu. Árni Sæberg

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra sagði á Alþingi í dag að tannheilsa væri einn veikasti hlekkur íslenska heilbrigðiskerfisins. Hann sagðist vona að Alþingi fyndi lausnir og bætti úr, þannig að þjónusta við börn og unglinga yrði bætt.

Umræðuna um tannheilsu hóf Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokks, en hann spurði ráðherrann hvort tannheilsu barna hefði hrakað á undanförnum árum.

Guðbjartur benti á að nánast öll tannlæknaþjónusta hefði verið einkavædd, rekin af tannlæknum sjálfum og þeir hefðu verið án samnings í tæp ellefu ár. Hann sagði að lagt hefði verið af stað með það í upphafi, að endurgreiddur kostnaður yrði 75% af raunkostnaði fyrir viðkomandi börn, eða foreldra þeirra. „Þetta hefur sigið niður smátt og smátt því gjaldskrár tannlækna hafa hækkað en hlutdeild ríkisins ekki að sama skapi, og er um það bil 45% í dag.“ Hann sagðist binda vonir við að samningar við tannlækni næðust í ár.

Hann sagði annan þátt einnig afar veikan, þ.e. upplýsingagjöf og upplýsingar almennt um ástandið. Hann sagði ljóst að ekki vantaði tannlækna hér á landi en þeir væru fleiri en víðast hvar annars staðar. Hins vegar væri ástandið í tannheilsu lakara en víðast hvar. Guðbjartur sagði að þegar rætt væri um ástandið í tannheilsu væri oftast nær vísað í rannsókn sem gerð hefði verið á árunum 2004 og 2005. Hún væri því orðin ansi gömul.

Guðbjartur sagði brýnt að endurtaka rannsóknina og fá nýjustu upplýsingar um ástandið í tannheilsu barna og ungmenna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert