„Ég ætla ekki að gefast upp“

Eiríkur Ingi Jóhannsson í viðtali í Kastljósi í kvöld.
Eiríkur Ingi Jóhannsson í viðtali í Kastljósi í kvöld. mbl.is

„Við vorum að nálgast Noreg og þetta gekk vel,“ segir Eiríkur Ingi Jóhannsson, sem komst einn lífs af þegar togarinn Hallgrímur fórst undan ströndum Noregs. 

Eiríkur Ingi var í viðtali í Kastljósi á RÚV í kvöld.

Um borð voru fjórir menn, auk Eiríks voru þar þeir Gísli Garðarsson, Einar G. Gunnarsson og Magnús Þórarinn Daníelsson.

Hann sagði að skipverjar hefðu búist við óveðri á þeim stað sem skipið fórst og að þeir hefðu verið undirbúnir fyrir það. Að öðru leyti hefði ferðin gengið að mestu leyti vel. Smáveltingur hefði verið fyrstu 2-3 dagana. Hann segist hafa verið sjóveikur framan af.

Engin vandamál í ferðinni

„Það voru aldrei nein vandamál alla þessa ferð,“ sagði Eiríkur í Kastljósi. 

Hann sagði að skipið hefði verið farið að hallast nokkuð á bakborða og að skipverjar hefðu reynt að rétta það við, en að skipstjóri hefði ekki séð ástæðu til að halda því áfram og að skipverjar hefðu ekki haft af þessu miklar áhyggjur.

Önnur stýrisdælan fór um klukkan hálfeitt um dag, Eiríkur fór í stýrishúsið til að reyna að koma henni í gang. „Fyrst fer hún aðeins í gang, en síðan kemur skammhlaup. Hvellur.“ Skömmu síðar fór hin. „Skipið var búið að missa stýri. Í þessu veðri, þetta var gríðarlega alvarlegt,“ sagði Eiríkur.

Þá var stýrisrýmið orðið fullt af sjó.

Veður var orðið vont og brot gengu yfir skipið. Eiríkur fór í galla og björgunarvesti og fór upp á dekk ásamt öðrum skipverja til að komast að stýrisvélarrýminu.

„Maður var bara rólegur. Þetta er bara sjómennska.“

„Síðan vorum við komnir þarna aftast á rýmið, við opnuðum lúguna og allt var full af sjó,“ sagði Eiríkur. “Mér leist ekkert á að fara þarna, en eina dælan til að ná sjó úr skipinu var þarna niðri.“ Hann segir að skammhlaup hafi orðið í dælunni og að þeir hafi farið aftur inn í skip.

„Skipið var alltaf að ganga fram og til baka, skyndilega hallast það á stjórnborða og fór ekki  til baka,“ sagði Eiríkur. „Það var kominn sjór upp á alla glugga.“

Flotgalli, flotgalli

„Flotgalli, flotgalli, það var það fyrsta sem heilinn sagði mér,“ sagði Eiríkur. Hann segist hafa farið beint þangað sem gallarnir voru geymdir og farið í einn þeirra.

„Ég heyrði að Maggi var að kalla Mayday-Mayday. Hann sagði að næst þegar við færum yrði tekinn með gervihnattarsími.“

Hann segir að á þessum tímapunkti hafi rafmagnið verið farið af skipinu. 

Eiríkur reyndi að komast um borð í björgunarbát. Á þeim tímapunkti var enginn kominn í flotgalla nema hann. Hann segir Magnús hafa kallað á sig og sagt sér að losa björgunarbátinn. Hann reyndi það, en báturinn féll niður með skipinu og festist í rými.

„Siðan tek ég eftir því að báturinn opnast.“ Báturinn losnaði og hinir skipverjarnir voru komnir til Eiríks. Þeir héldu hver í annan og ofsaveðrinu sem gekk yfir þá. 

Magnús og Eiríkur voru þeir einu sem voru í flotgalla. 

Einar komst í björgunarbátinn, en skolaði síðan út úr honum. Eiríkur stökk þá í bátinn, greip í Einar og reif hann upp. „Ég man aldrei eftir því að við höfum allir fjórir legið í  bátnum. Ég er viss um að það kom stórt brot sem kastaði okkur út.“

Gísli og Eiríkur komust aftur í bátinn og reyndu að blása lífi í Einar, án árangurs. Magnús komst skömmu síðar um borð í bátinn.

Magnús og Eiríkur klemmdu Gísla á milli sín til að halda á honum hita. Hann segir Gísla hafa verið með klukku og að á þessum tíma hafi klukkuna vantað tíu mínútur í tvö. Þeir fundu engan neyðarsendi í bátnum.

„Svo allt í einu kemur svaðalegt brot og kastar okkur öllum úr bátnum,“ sagði Eiríkur. Við það hvarf Gísli. Hann segir að Magnús hafi talið að gallinn sinn læki og kallað á sig og sagt sér að fara í bátinn. Þá hafði bátinn rekið hratt undan. 

Eiríkur fann olíubrúsa, tæmdi hann og fékk Magnúsi hann þannig að hann gæti flotið á honum. „Ég sé alltaf til hans og hann horfir alltaf til mín.“

Maður hugsar til barnanna sinna

„Ég mátti ekki gefast upp. Maður hugsar til barnanna sinna.“ Skyndilega sá hann ekki lengur til Magnúsar. „Það var eins og hann hefði gufað upp allt í einu.“

Eiríkur taldi kjark í sig og söng hástöfum þegar hann var á reki aleinn á reginhafi í þrjá klukkutíma. Hann hélt alltaf í vonina um að hinn björgunarbáturinn myndi losna frá skipinu og fljóta til hans. 

„Þú verður að vera brattur, hugsaðu til barnanna þinna. Þú verður að komast heim til barnanna þinna og konu.“ Hann segist ekki hafa verið hræddur. Ég gerði samkomulag við sjálfan mig; ég ætla að tolla í tíu tíma. Ég ætla ekki að gefast upp.“

I love you man

Eiríkur segist skyndilega hafa heyrt í þyrlu. Hún flaug í fyrstu framhjá honum og hann sá hana hverfa í myrkrið. „Svo sé ég þá snúa við lengst í buskanum.“ Hann byrjaði að synda í átt að þyrlunni og gerði allt sem hann gat til að vekja athygli á sér.

„Loksins er ég eiginlega kominn undir þyrluna.“ Þá var honum bjargað. „Svo sá ég sigmanninn koma niður. Ég synti beint í fangið á honum og sagði: „I love you man. I love you man.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert