Fjögurra ára fangelsi fyrir nauðgun

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur mbl.is/Hjörtur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt tvo karlmenn í fjögurra ára fangelsi fyrir nauðgun. Mönnunum er einnig gert að greiða fórnarlambi sínu 1,2 milljónir króna í miskabætur. Þeir neituðu sök.

Mennirnir, Arkadiusz Zdzislaw Pawlak og Rafal Grajewski, fæddir 1980 og 1981, óku framhjá fórnarlambi sínu, ungri konu, þar sem hún var á leið um Snorrabraut og hugðist fara að verslun við Barónsstíg á áttunda tímanum 16. október sl., sem var sunnudagur.

Konan bar við að þeir hefðu ávarpað hana á ensku og boðist til þess að aka henni að versluninni. Af því varð ekki því ökumaðurinn ók að Reykjavíkurflugvelli þar sem hann stöðvaði bifreiðina. Mennirnir réðust þar á konuna með ofbeldi og neyddu til kynferðismaka í bifreiðinni.

Konan reyndi að telja þeim trú um að hún væri HIV-smituð, til þess að fá þá til að hætta, auk þess sem hún öskraði. Ökumaðurinn tók hana hálstaki og sló hana í andlitið.

Mennirnir neituðu sök og var framburður þeirra svipaður í meginatriðum. Annar mannanna ´viðurkenndi að hafa átt munnmök við konuna og hinn að hafa horft á. Þeir höfnuðu því alfarið að konan hafi verið neydd til kynferðismaka, eða hún beitt ofbeldi á nokkurn hátt.

Mat dómsins var það, með hliðsjón af niðurstöðu lífsýnarannsóknar, sem tekið var af getnaðarlim Rafals, framburði sérfræðings við Statens kriminaltekniska laboratorium í Linköping, sem annaðist rannsóknina, sem og framburði sérfræðings lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, að gegn neitun mannanna væri það hafið yfir skynsamlegan vafa að getnaðarlimur Rafals hafi snert konuna þar sem hún bar um.

Þótti sannað að mennirnir hefðu þvingað konuna til kynferðismaka með ofbeldi.

mbl.is