Jóna Hrönn fékk köku ársins

Stefán Hrafn Sigfússon, höfundur kökunnar ásamt Jónu Hrönn og Jóhannesi …
Stefán Hrafn Sigfússon, höfundur kökunnar ásamt Jónu Hrönn og Jóhannesi Felixsyni, formanni Landssambands bakarameistara.

Landssamband bakarameistara hefur fyrir siðs að afhenda einni verðugri konu köku ársins um leið og hún er kynnt í bakaríum í febrúar ár hvert. Að þessu sinni varð fyrir valinu Jóna Hrönn Bolladóttir, sóknarprestur í Vídalínskirkju. Hún hefur sinnt óeigingjörnu starfi í þágu barna og ungmenna um árabil og komið víða við í störfum sínum, segir í tilkynningu frá Landssambandinu.

Á síðasta ári gaf hún út bók ásamt eiginmanni sínum, Bjarna Karlssyni presti, um líf og störf þeirra hjóna. En þau hafa bæði frá æskuárum tekið þátt í kristilegu starfi og miðlað hugsjónum sínum, trú og orku til annarra. Þau þjóna nú bæði, hvort í sinni sókn, en hafa jafnframt tekið virkan þátt í félags- og stjórnmálum.

Að sögn Jónu Hrannar eru prestar miklir sérfræðingar í tertum enda boðnir í margar veislur. Hún segir að í guðfræðideildinni hafi verið grínast með það að bjóða þyrfti upp á námskeið í tertuskurði þar sem prestinum er oft boðið fyrstum að veisluborðinu og þurfi því að kunna að skera tertur fallega.

Hún telur mikilvægt að gera sér dagamun og veislur með góðum veitingum séu sérlega vel til þess fallnar að boða kærleika og trú því þar myndast samfélag gleðinnar og hjörtu fólks eru opnari en á öðrum stundum. Kristur var duglegur að mæta á mannamót og veislur því hann þekkti leiðina að hjörtum fólks.

Jóna Hrönn segist alltaf vera að reyna að draga úr sykurneyslu en svo þurfi að vera góðir nammidagar á milli og þá sé ekki slæmt að velja eðaltertu, hvað þá verðlaunatertu.

Kaka árins inniheldur meðal annars ljúffenga Freyju-karamellu, hnetur og súkkulaði og er komin í bakarí um land allt.

mbl.is

Bloggað um fréttina