Nýtt stjórnmálaafl stofnað

Guðmundur Steingrímsson, alþingismaður.
Guðmundur Steingrímsson, alþingismaður. mbl.is/Ómar

Björt framtíð, nýr stjórnmálaflokkur, var stofnaður í dag á fundi á Kex Hostel. Flokkurinn stefnir á framboð til Alþingis.

Í fréttatilkynningu frá flokknum segir: „Á meðal nýbreytni í skipulagi má nefna, að flokkurinn mun reka málefnastarf sitt á netsíðu, allan sólarhringinn, allan ársins hring, og í forystu flokksins eru tveir formenn, sem skulu starfa saman og vera sammála um stórar ákvarðanir.“

Formaður var kjörinn Guðmundur Steingrímsson alþingismaður. Stjórnarformaður var hins vegar kjörin Heiða Kristín Helgadóttir framkvæmdastjóri.

Guðmundur var kjörinn á þing árið 2009 fyrir Framsóknarflokkinn í NV-kjördæmi. Árið 2007 bauð hann sig fram fyrir Samfylkinguna í SV-kjördæmi og tók sæti á Alþingi sem varaþingmaður nokkrum sinnum. Hann sagði sig úr Framsóknarflokknum árið 2011 og hefur síðan starfað sem þingmaður utan flokka.

Heiða Kristín Helgadóttir var kosningastjóri Besta flokksins í síðustu borgarstjórnarkosningum. Hún gegndi starfi aðstoðarmanns borgarstjóra um skeið og er nú varaformaður og framkvæmdastjóri Besta flokksins.

Stjórn Bjartrar framtíðar skipa 40 manns. Má þar m.a. nefna Andrés Pétursson, formann Evrópusamtakanna, Einar Skúlason, markaðsstjóra hjá 365, Eldar Ástþórsson, markaðsstjóra hjá CCP, Erlu Karlsdóttur, varabæjarfulltrúa í Kópavogi, G. Valdimar Valdemarsson, framkvæmdastjóra Ferlis ehf., Halldór Zoëga, fjármálastjóra Keilis, Jón Gnarr borgarstjóra, Margréti Vilhjálmsdóttur leikkonu og Snorra Baldursson þjóðgarðsvörð.

Betri framtíð heldur úti heimasíðunni www.heimasidan.is og þar má finna frekari upplýsingar um flokkinn.

Heiða Kristín Helgadóttir.
Heiða Kristín Helgadóttir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert