Reglum um kosningar breytt

Frá aukakirkjuþingi í dag.
Frá aukakirkjuþingi í dag. mbl.is/Kristinn

Aukakirkjuþingi er lokið, en á því var samþykkt að breyta reglum um kosningu biskups Íslands og vígslubiskupa á þann veg að aftur verði horfið til póstkosningar í stað rafrænnar kosningar, eins og ráðgert hafði verið.

Í tilkynningu frá Þjóðkirkjunni segir: „Jafnframt var kosin fimm manna nefnd  sem er ætlað það hlutverk að endurskoða starfsreglur um kosningu biskups Íslands og vígslubiskupa og á hún að skila störfum á kirkjuþingi sem kemur saman næsta haust.“

Pétur Kr. Hafstein, forseti kirkjuþings, sagði m.a. við setningu aukakirkjuþings í dag að það væri hans skoðun að allt þjóðkirkjufólk, ekki aðeins trúnaðarmenn í sóknarnefndum, ætti að njóta kosningaréttar til biskupskjörs sem og kirkjuþings, enda væri þjóðkirkjan stærsta fjöldahreyfing í landinu.

„Þá sagði Pétur brýnasta verkefni kirkjunnar um þessar mundir væri að endurheimta traust og trúnað og ná til þeirra sem af einhverjum ástæðum hafa ekki talið sig eiga lengur samleið með kirkjunni,“ segir í tilkynningu einnig.

Í nefndinni sem endurskoða skal kosningareglur sitja; Gísli Baldur Garðarsson formaður, dr. Þorkell Helgason, Inga Rún Ólafsdóttir, Pétur B. Þorsteinsson og sr. Jóna Kristín Þorvaldsdóttir.

Herra Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, hefur beðist lausnar frá embætti frá 30. júní í ár að telja og er gert ráð fyrir að biskupskjör fari fram í mars.

Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, hefur beðist lausnar frá embætti 30. …
Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, hefur beðist lausnar frá embætti 30. júní nk. mbl.is/Sigurgeir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert