Sogn hagkvæmari kostur en Bitra

Fangelsið Litla-Hraun.
Fangelsið Litla-Hraun. Ómar Óskarsson

Í athugun er að flytja starfsemi fangelsisins að Bitru í Flóahreppi yfir á Sogn í Ölfusi en það myndi hafa talsverða hagræðingu í för með sér fyrir Fangelsismálastofnun, að sögn Páls Winkel, fangelsismálastjóra, sem átti frumkvæðið að hugmyndinni.

„Fangelsismálastofnun er að greiða nokkuð háa leigu fyrir húsnæðið að Bitru og okkur ber auðvitað að leita allra leiða til að lækka kostnað. Þess vegna fórum ég, Margrét Frímannsdóttir og fleiri í gær að skoða Sogn og athuga hvort þetta kæmi til álita,“ segir Páll.

Margrét Frímannsdóttir er forstöðumaður Litla-Hrauns.

Páll segir það þó ekki rétt sem sagt hafi verið frá í fréttum að störf gætu skapast við flutninginn, starfsemin yrði með sama móti áfram og þau átta stöðugildi sem nú eru á Bitru flytjast óbreytt yfir.

Páll segist hafa lagt tillögu um flutningin fram við yfirmenn sína í gær og vonast til þess að svör fáist á næstu dögum.

„Vonandi gengur þetta bara eftir. Það yrði hagkvæmara fyrir Fangelsismálastofnun að reka opið fangelsi af þessari stærðargráðu þarna en á Bitru og um það snýst málið,“ segir Páll.

Sogn hýsir nú réttargeðdeild Landspítalans en starfsemi hennar verður flutt á Klepp 1. mars næstkomandi.

mbl.is