Réttindi hinsegin fólks takmörkuð

Sýnileiki hinsegin fólks í Rússlandi verður takmarkaður ef lögin verða …
Sýnileiki hinsegin fólks í Rússlandi verður takmarkaður ef lögin verða samþykkt. mbl.is/Ómar

Á næstu klukkustundum getur svo farið að samþykkt verði lög í Rússlandi sem takmarka verulega réttindi hinsegin fólks. „Lögin fela í raun í sér bann við sýnileika hinsegin fólks,“ segir framkvæmdastjóri Samtakanna '78. Íslenska utanríkisráðuneytið hefur fengið áskoranir í dag um að beita sér í málinu.

Það eru yfirvöld í St. Pétursborg sem ætla sér að setja lögin en frumvarpið var fyrst sett fram síðastliðið haust en þá tókst með miklum alþjóðlegum þrýstingi að stöðva lagasetningu þess. Nú berast hins vegar fregnir af því að leggja eigi frumvarpið aftur fram og að koma eigi því í gegn með hraði, innan 24 klukkustunda.

„Það náðist að stöðva þessa lagasetningu í fyrra en svo er þetta allt í einu aftur að koma upp á yfirborðið og okkur skilst að greiða eigi atkvæði um þetta á morgun,“ segir Árni Grétar Jóhannsson, framkvæmdastjóri Samtakanna '78. Hann hefur ásamt fjölda annarra haft samband við íslenska utanríkisráðuneytið í dag og óskað eftir að pólitískum þrýstingi verði beitt til að stöðva lagasetninguna. Fyrst í stað er lögunum ætlað að ná til hinsegin fólks í St. Pétursborg en rússnesk yfirvöld hafa hótað því að síðar verði þau sett á landsvísu.

„Lögin munu í raun fela í sér bann við öllum sýnileika hinsegin fólks,“ segir Árni. „Það má ekki tala um kynhneigð sína, ekki ræða um málið opinberlega, ekki skrifa bækur eða birta greinar. Með þessum lögum er verið að gera heilan þjóðfélagshóp ósýnilegan.“

Samtökin Allout hafa verið hvað duglegust að dreifa upplýsingum um lögin og áhrif þeirra.

Árni segir Samtökin '78 hafa átt í góðum samskiptum við íslenska utanríkisráðuneytið í dag og veit til þess að það hafi fengið fjölda símtala og tölvuskeyta vegna málsins.

Árni hvetur alla sem vilja láta sig málið varða að taka þátt í undirskriftum, m.a. á vefsíðu Allout-samtakanna. Einnig er hægt að fylgjast með framvindu málsins á facebooksíðu Samtakanna '78.

„Það er náttúrlega skelfilegt að þetta sé að gerast á 21. öldinni. Ég tala nú ekki um í Evrópu. Það er erfitt að vera samkynhneigður í Rússlandi í dag. Hinsegin fólk hefur lengi barist fyrir sýnileika sínum þar og virðingu. Þessi lög munu gera þeim mun erfiðara fyrir.“

Þegar frumvarpið var hvað mest til umræðu seint á síðasta ári snerust áhyggjur manna meðal annars um það að aukið hatur á hinsegin fólki sem lagasetningin myndi hafa í för með sér myndi smitast um alla Austur-Evrópu.

Miðstöð menningar hafnar hinsegin fólki

Lögin sem borgaryfirvöld í St. Pétursborg, miðstöð menningar í Rússlandi, vilja ná í gegn taka til alls hinsegin fólks; samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transfólks. Samkvæmt frétt breska blaðsins Guardian voru skipulögð mótmæli vegna frumvarpsins víða sl. haust og alþjóðasamfélagið tók við sér og fordæmdi frumvarpið.

Samkvæmt frumvarpinu verða þeir sektaðir sem hafa í frammi hinsegin „áróður“ en þó er ekki tekið fram hvað telst til áróðurs. Vöknuðu því spurningar um hvort list, bókmenntir og fleira gætu flokkast sem áróður og margir túlka frumvarpið á þann veg.

Þegar er búið að setja sambærileg lög í borginni Ryazan, sem er um 180 km fyrir utan Moskvu. Úrræðum laganna hefur þó aðeins einu sinni verið beitt frá því þau voru samþykkt árið 2006. Þegar fulltrúar samtaka samkynhneigðra komu til Ryazan til að uppfræða ungt fólk um samkynhneigð voru þeir handteknir og sektaðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert