Stutt í stofnun Breiðfylkingar

Þingmenn Hreyfingarinnar, Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari, munu …
Þingmenn Hreyfingarinnar, Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari, munu standa að stofnun nýja stjórnmálaaflsins. mbl.is

Ný stjórnmálasamtök, sem bera vinnuheitið Breiðfylkingin, verða stofnuð næstkomandi sunnudag. Einstaklingar úr Hreyfingunni, Borgarahreyfingunni, Frjálslynda flokknum og Stjórnlagaráði hafa að undanförnu unnið að samþykktum og kjarnastefnuskrá, og er gert ráð fyrir að boðið verði fram á landsvísu.

Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, er ein þeirra sem standa að Breiðfylkingunni. „Það sem hefur verið ákveðið, er að stofna svona félagsskap, og hann verður stofnaður af einstaklingum úr þessum áttum. Á stofnfundinum verða samþykktirnar fullmótaðar, en það liggja fyrir drög, og kjarnastefna sem unnið hefur verið að.“

Auk ofangreindra hafa einnig mætt á fundi fulltrúar frá Samtökum fullveldissinna og Lýðfrelsisflokknum. Ekki er þó víst með þátttöku þeirra. Framhaldsstofnfundur verður haldinn eftir stofnfundinn, að sögn Margrétar, og þá komi frekar í ljós hverjir standa muni að Breiðfylkingunni. „Þar geta þau félagasamtök sem vilja sótt um aðild. Uppbyggingin verður því eiginlega nákvæmlega eins og hjá Samfylkingunni.“

Opnir fundir málefnahópa

Óvíst er hver verður formaður hinna nýju stjórnmálasamtaka eða hvort það verði yfirhöfuð formaður. Margrét segir að gert sé ráð fyrir því í samþykktunum, að skipulagið verði eins og hjá Hreyfingunni hvað formanninn áhrærir. Þá verði kosið í framkvæmdaráð sem haldi starfi flokksins gangandi, en pólitísk stefnumótun fari fram í málefnahópum sem eigi að vera eins opnir og hægt verði.

Hvað varðar nafn og listabókstaf segir Margrét að nafnið hafi ekki verið ákveðið en vinnuheitið sé Breiðfylkingin. Þá séu þeir flokkar sem hugsanlega taki þátt með listabókstafi og ef náist samstaða þurfi ekki að sækja um nýjan.

Spurð hvað verði um Hreyfinguna segir Margrét, að hún muni renna í Breiðfylkinguna en engu að síður halda áfram. „Okkur líður mjög vel í Hreyfingunni, og hún mun starfa áfram. Við ætluðum að vera í tvö kjörtímabil, þannig hún yrði þá lögð niður 2017.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert