Trúnaður ríkir um mál kennara

Brekkuskóli á Akureyri.
Brekkuskóli á Akureyri. mbl.is/Kristján Kristjánsson

Formaður skólanefndar Akureyrar segist ekkert geta tjáð sig um málefni grunnskólakennara í Brekkuskóla sem skrifað hefur um samkynhneigð sem synd á vefsvæði sitt. Málið var tekið fyrir á fundi nefndarinnar fyrr í vikunni, en Akureyri vikublað greindi fyrst frá málinu.

Fjallað var um málið hjá skólanefndinni undir liðnum Hatursáróður, og að ósk Loga Más Einarssonar, fulltrúa Samfylkingarinnar í nefndinni og foreldris barns í Brekkuskóla. Í fundagerð segir að tekin hafi verið til umræðu ummæli á opinberum vettvangi um samkynhneigð og viðbrögð við þeim. Á fundinn mætti einnig Inga Þöll Þórgnýsdóttir lögmaður Akureyrarbæjar.

Preben Jón Pétursson, formaður skólanefndar, vildi ekki tjá sig um málið þegar mbl.is leitaði eftir því. „Eins og staðan er í dag erum við bundin trúnaði og ég get því miður ekki upplýst neitt um stöðu mála. Þetta fer í sinn eðlilega farveg.“

Nánar spurður út í þann farveg sagði Preben um að ræða þann farveg sem opinberir starfsmenn þurfa að fara eftir. En hvers vegna þessi trúnaður? „Það er til þess að verja einstaklinga sem eiga í hlut.“

Sá einstaklingur sem á í hlut er grunnskólakennarinn Snorri Óskarsson, kenndur við Betel. Á vefsvæði hans segir m.a.: „Kjarninn í sjónarmiði evangelískra er sá að samkynhneigðin telst vera synd. Syndin erfir ekki Guðs ríkið og því óæskileg. Laun syndarinnar er dauði og því grafalvarleg. Sennilega verður ekki hægt að finna einhverja „sáttarleið“ í þessu máli. Þannig hafa árekstrarnir við samkynhneigðina verið allsstaðar eins, milli hins Evangelíska orðs og svo „mannréttinda“.“

Í annarri færslu varði Snorri svo orð sín með þessum hætti: „Að flokka þessi orð hvort sem þau koma frá Páli postula eða mér sem hatursáróður er auðvitað hið sama og að kenna Veðurstofunni um vonda veðrið.

Fjallað um fordóma í siðareglum

Í siðareglum kennara sem endurskoðaðar voru í apríl 2011 eru þrjár greinar sem gætu átt við í þessu tilviki.  í 5. grein segir að kennurum beri að hafa jafnrétti að leiðarljósi, í 6. grein segir að kennarar skuli vinna gegn fordómum, einelti og öðru ranglæti sem nemendur verða fyrir og í 11. grein segir að kennurum beri að sýna öðrum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu.

Í samtali við fréttastofu Stöðvar 2, og greint var frá var á mbl.is, var Snorri spurður að því hvort hann væri að líkja því saman að vera samkynhneigður og bankaræningi. Svar Snorra var: „Að stela er synd. Að ágirnast er synd. Og að vera samkynhneigður er synd.“

Spurður að því hvort skólanefnd Akureyrarbæjar hyggist taka málið áfram fyrir á fundum sínum sagðist Preben ekki útiloka það.

Ekki náðist í skólastjóra Brekkuskóla, aðstoðarskólastjórann og formann félags grunnskólakennara. 

Snorri Óskarsson
Snorri Óskarsson mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert