Handtekinn vegna sprengjumáls

Frá vettvangi á Hverfisgötu.
Frá vettvangi á Hverfisgötu. Árni Sæberg

Karlmaður var handtekinn á Suðurnesjum í dag í  tengslum við rannsókn lögreglu á sprengju sem fannst við Hverfisgötu í Reykjavík á síðasta degi janúarmánaðar. Samkvæmt heimildum mbl.is var einnig lagt hald á bifreið. Yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar vildi ekki tjá sig um málið.

Friðrik Smári Björgvinsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglu höfuðborgarsvæðisins, vildi ekkert tjá sig um málið í samtali við mbl.is en sagði að ef eitthvað nýtt myndi gerast í málinu myndi lögregla senda út fréttatilkynningu.

Ttilkynning barst lögreglu um níuleytið þriðjudaginn 31. janúar sl. um að torkennilegur hlutur hefði fundist á Hverfisgötu.  Fjölmennt lið sérsveitarmanna, lögreglumanna og sprengjusérfræðinga var sent á vettvang og reyndist hluturinn vera leifar af sprengju sem sprakk fyrr um morguninn. Sérútbúið vélmenni notað til að eyða sprengjunni. 

Engan sakaði og engar skemmdir urðu, og talið er að sprengjan hafi ekki verið öflug. Hætta hafi þó verið á ferðum í nánasta umhverfi þar sem hún sprakk, í grennd við Stjórnarráðshúsið.

Lögreglan leitaði í kjölfarið að karlmanni og hvítri sendibifreið, maðurinn var talinn hafa komið með sprengjuna í miðborgina. Hann var jafnframt talinn hafa ekið  bifreið af gerðinni Renault Kangoo.

Ekki liggur fyrir hvort maðurinn sem er í haldi lögreglu sé sá sami og leitað var að, eða bifreiðin sú sama.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert