Samstaða er í skýjunum

Lilja Mósesdóttir.
Lilja Mósesdóttir. mbl.is/Ómar

Við erum auðvitað alveg í skýjunum yfir þessu og erum hrærð yfir að fá svona mikinn stuðning,“ segir Lilja Mósesdóttir, þingmaður og formaður Samstöðu, en ný skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar tvö sýnir 21% fylgi við framboðið. „Við bjuggumst alls ekki við þessu svona í upphafi.“

Um 53%  þeirra sem spurðir voru í könnuninni tóku afstöðu.

„Þetta gefur okkur aukinn kraft og vissu fyrir því að við séum að gera rétt. En auðvitað er ekki hægt að treysta á að það sem kemur fram í skoðanakönnunum komi upp úr kjörkössunum.“

Lilja segir Samstöðufólk hafa búist í mesta lagi við að fá um 15% aðspurðra í könnuninni.   „Við áttum ekki von á meiru, því við höfum ekkert komist út á land til að kynna okkur. Við höfum bara verið í sambandi við fólk úr kjördæmunum. Við ætluðum að fara í þessari viku, en komumst síðan ekki. Veðrið kom í veg fyrir það,“ segir Lilja og segir febrúar að þessu leytinu til óhagstæðan til að stofna nýjan flokk.

Stormsveipur í íslenskri pólitík

„En við ætlum að reyna okkar besta við að komast á stóru staðina,“ segir Lilja og bætir við að gott sé að hafa veðurfræðing í forystu flokksins, en varaformaður hans er Sigurður Þ. Ragnarsson jarð- og veðurfræðingur. „Hann spáir mikið í veðrið og lagði til að blaðamannafundurinn yrði á stormasömum degi. Enda komum við eins og stormsveipur inn í íslenska pólitík.“

Hún segir erfitt að segja til um hvaðan fylgið komi. 

„En mér sýnist Sjálfstæðisflokkurinn vera að missa heilmikið fylgi og það gæti komið þaðan. Svo hef ég fundið fyrir því að fólk sem studdi stjórnarflokkana hefur beðið átekta.“

mbl.is

Bloggað um fréttina