Andlát: Sigríður Guðmundsdóttir, Hvítanesi á Akranesi

Sigríður Guðmundsdóttir.
Sigríður Guðmundsdóttir. mbl.is/Eyþór

Sigríður Guðmundsdóttir, Sigga á Hvítanesi, lést á Dvalarheimilinu Höfða á Akranesi í fyrradag. Hún varð 102 ára að aldri.

Sigríður fæddist á Sigurstöðum á Akranesi 4. febrúar 1910 og ólst þar upp. Foreldrar hennar voru Kristín Jónsdóttir, f. 10. ágúst 1881, d. 3. mars 1966, og Guðmundur Guðmundsson, f. 4. september 1884, d. 24. júlí 1938. Sigríður átti níu alsystkini og tvö hálfsystkini.

Hún giftist ung Þórði Þ. Þórðarsyni og fluttist þá á Hvítanes sem er hús við Kirkjubraut 16 á Akranesi, við sömu götu og æskuheimili hennar. Þar héldu þau heimili þar til Þórður lést, 1989.

Saman ráku Þórður og Sigríður flutningafyrirtækið sem rekið var undir hans nafni, ÞÞÞ.

Sigríður tók bílpróf á árinu 1930, fyrst kvenna í Borgarfirði, og ók rútum og vörubílum fyrirtækisins.

Sigríður vildi aldrei láta hafa fyrir afmælum sínum en þó fagnaði hún 100 ára afmælinu með ættingjum sínum og vinum með kaffiboði í Dvalarheimilinu Höfða. Þar var margt um manninn enda afkomendur orðnir margir.

Hún var lengst af við góða heilsu, sinnti handavinnu og spilaði vist, fylgdist með þjóðmálunum og fór í ferðalög.

Sigríður fylgdist alla tíð vel með knattspyrnunni enda tengd íþróttinni. Þannig lék Þórður sonur hennar með gullaldarliði Skagamanna og landsliðinu, Ólafur og Teitur Þórðarsynir sem eru barnabörn hennar og barnabarnabörnin Þórður og Stefán Þórðarsynir léku einnig með landsliði Íslands.

Börn Þórðar og Sigríður eru Ástríður Þórey Þórðardóttir, fædd 1929; Þórður Þórðarson, fæddur 1930, látinn 2002; Ævar Hreinn Þórðarson, fæddur 1936; og Sigurður Þórðarson fæddur 1947. Afkomendur Sigríðar og Þórðar eru orðnir um 120.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert