Andlát: Jónas H. Haralz, fyrrv. bankastjóri

Jónas H. Haralz.
Jónas H. Haralz.

Jónas Halldór Haralz, hagfræðingur og fyrrverandi bankastjóri, er látinn á 93. aldursári. Jónas fæddist í Reykjavík 6. október árið 1919. Foreldrar hans voru Haraldur Níelsson prófessor og Aðalbjörg Sigurðardóttir, húsfrú og kennari.

Jónas lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1938. Hann stundaði nám í efnaverkfræði við Konunglega tækniháskólann í Stokkhólmi 1938-1940 og í hagfræði, tölfræði, stjórnmálafræði og heimspeki við Stokkhólmsháskóla 1940-1945 og lauk magistersprófi í þessum greinum árið 1944.

Jónas var hagfræðingur hjá nýbyggingarráði á árunum 1945-1947 og hjá fjárhagsráði 1947-1950. Jónas starfaði sem hagfræðingur hjá Alþjóðabankanum í Washington á árunum 1950-1957 og var þátttakandi í sendinefndum bankans gagnvart Mexíkó, Mið-Ameríkuríkjum og Perú. Hann kom aftur til starfa á Íslandi 1957 og var ráðunautur ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum til 1961. Jónas var ráðuneytisstjóri viðskiptaráðuneytisins 1958-1961, ráðuneytisstjóri efnahagsráðuneytisins 1961-1962 og forstjóri Efnahagsstofnunarinnar 1962-1969. Hann var bankastjóri Landsbanka Íslands frá 1969 til 1988. Jónas var einnig aðalfulltrúi Norðurlanda í stjórn Alþjóðabankans í Washington frá 1988-1991. Frá 1991 til 1996 stundaði hann ráðgjafastörf í Washington á vegum norska utanríkisráðuneytisins, Norræna þróunarsjóðsins og bandarísku stofnananna Overseas Development Council og The Brookings Institution.

Jónas gegndi fjölmörgum öðrum trúnaðarstörfum um ævina. Hann var m.a. fulltrúi í bankaráði Landsbanka Íslands og í bankaráði Útvegsbankans um árabil og átti sæti í stjórn Scandinavian Bank Ltd í London. Hann var í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins á árunum 1975 til 1987.

Jónas var afkastamikill við ritstörf á fræðasviði sínu. Eftir hann liggur fjöldi rita og ritgerða. Hann var sæmdur stórriddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu, stórriddarakrossi norsku St. Olavs-orðunnar og stórriddarakrossi sænsku Norðurstjörnuorðunnar. Jónas var einnig sæmdur heiðursdoktorsnafnbót í hagfræði við viðskiptadeild Háskóla Íslands.

Fyrri kona Jónasar var Guðrún Erna Þorgeirsdóttir. Hún lést árið 1982. Sonur þeirra er Jónas Halldór Haralz. Síðari kona hans var Sylvía Haralz. Hún lést árið 1996.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert