Buðu Íslandi hærri hlutdeild

Fundur um lausn makríldeilunnar í Reykjavík var árangurslaus.
Fundur um lausn makríldeilunnar í Reykjavík var árangurslaus. mbl.is/Árni Sæberg

María Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB, og Lisbeth Berg-Hansen, sjávarútvegsráðherra Noregs, sendu í dag frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem lýst er vonbrigðum með að ekki hafi tekist samkomulag um nýtingu makrílstofnsins. Þær segjast hafa boðið Íslandi hærri hlutdeild.

„Þrátt fyrir fimm samningalotur frá haustinu 2011 fram í byrjun árs 2012, þar sem ESB og Noregur lögðu fram þrjár tillögur, eru það sérstök vonbrigði að hvorki Ísland né Færeyjar hafi í reynd reynt að ná samkomulagi. Það er miður að hvorki Ísland né Færeyjar lögðu fram tillögur sem ríma við svæðisbundnar meginreglur eða sögulegar veiðar úr stofninum, en samningar sem gerðir hafa verið um skiptingu afla landanna hafa byggst á þessum forsendum.

Sameiginleg tillaga sem ESB og Noregur lögðu fram í samningaviðræðum fól í sér að hlutdeild Íslands og Færeyja hefði aukist umtalsvert. Tillagan fól einnig í sér að íslenskum og færeyskum skipum hefði verið leyft að veiða verulegan hluta aflahlutdeildar þeirra í lögsögu ESB og Noregs, en sá makríll sem þar veiðist er marktækt verðmætari en makríll sem veiðist á íslenska eða færeyska hafsvæðinu.

Þó að Evrópusambandið og Noregur meti það lykilhlutverk sem sjávarútvegur gegni í íslensku og færeysku efnahagslífi, virðast Ísland og Færeyjar í engu taka tillit til mikilvægis sjávarbyggða í ESB og Noregi. Makrílveiði hefur aflað þúsundum sjómanna og iðnaðarmanna í strandsamfélögum mikilla tekna áratugum saman. Ísland hefur hins vegar nýlega hafið makrílveiðar.

ESB og Noregur hafa byggt upp makrílstofninn með sjálfbærum veiðum. Þessari sjálfbærni er beinlínis ógnað með einhliða veiðum Íslendinga og Færeyinga.“

Í yfirlýsingunni segir að ESB og Noregur viðurkenni að breyting hafi orðið á göngu makrílsins á undanförnum árum. Auk þess hafi stofninn stækkað. Þetta réttlæti breytta skiptingu. Aukning í veiðum Íslendinga og Færeyinga sé hins vegar svo mikil að hún sé ekki í neinu samræmi við þær breytingar sem hafi orðið á göngum eða stofnstærð.

Evrópusambandið og Noregur skora á Íslendinga og Færeyinga að draga úr veiðunum og leita sanngjarna samninga um hlutdeild í stofninum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert