Götufólk hrakið í snjó og kulda

Frá Kaffistofu Samhjálpar þar sem hjálpfúsar hendur sameinast við að …
Frá Kaffistofu Samhjálpar þar sem hjálpfúsar hendur sameinast við að útdeila mat daglega. Mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ástandið er skelfilegt. Það er bara hræðilegt. Götufólkið kemur hingað eftir að vera búið að vera úti alla nóttina, kalt og hrakið og leggur sig jafnvel við borðið hjá mér," segir Kolbrún Pálína Hafþórsdóttir, matráður hjá Kaffistofu Samhjálpar. Aldrei hefur verið meira að gera á Kaffistofunni en í janúar.

Fyrstu vikur ársins 2012 voru bæði snjóþungar og kaldar í höfuðborginni. Tíðarfarið hefur reynst útigangsfólki og öðrum sem eiga í fá hús að venda erfitt. Kolbrún segir að róðurinn hafi jafnt og þétt verið að þyngjast hjá Kaffistofunni, álagið sé jafnan mest í lok mánaðar en aldrei meira en nú í janúar. „Ég er búin að vera hérna með 150 manneskjur í mat dag eftir dag. Seinni hlutinn í janúar var rosalegur. Það var eiginlega það versta sem ég hef séð og ég hef ekki heyrt það verra frá fólkinu heldur. Því við tölum saman hérna."

Missa heimilið og sofa í bílnum

Kaffistofan er opin milli 10 og 16 á daginn. Kolbrún segir að þegar svona kalt sé í veðri sitji margir inni allan tímann til að fá hita í kroppinn. „Þegar veðrin eru sem verst þá bíður fólk hér fyrir utan þegar ég kem um níuleytið á morgnana til að komast í skjól. Þeir spretta fram þegar þeir sjá mig og taka til hendinni og hjálpa mér að koma öllu upp. Við starfsfólkið reynum að hlúa að þeim eftir bestu getu, hér er allavega húsaskjól og heitt kaffi. Klukkan hálfþrjú fyllist svo allt hjá mér því þá er ég með heitan mat."

Aðspurð segir Kolbrún þó að það sé fleira en bara vetrarhörkurnar sem valdi aukinni aðsókn. „Tíðarfarið er auðvitað slæmt en svo er bara ofboðslega mikið um það að fólk er að missa húsnæði. Það sefur á götunni eða í bílnum sínum. Það er eiginlega stærsta breytingin sem ég sé, þetta er fólk sem er ekki í neyslu eða neinu svoleiðis. Það eru atvinnulausir, fatlaðir, svo er talsvert af vegalausum útlendingum sem hafa ekki atvinnuleyfi eða neitt slíkt."

Kolbrún segir að ástandið sé verra en flestir trúi. „Ég segi bara við fólk: Endilega komið og fáið ykkur kaffi með okkur. Hendið 100 kalli í boxið og setjist niður og sjáið hvernig ástandið er hjá okkur."

Um 150 manns hafa sótt mat og skjól á Kaffistofunni …
Um 150 manns hafa sótt mat og skjól á Kaffistofunni daglega síðustu vikur. Mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina