Hótanir um viðskiptaaðgerðir ekki trúverðugar

Viðræðum um stjórn makrílveiða í Norðaustur-Atlantshafi á árinu 2012 lauk …
Viðræðum um stjórn makrílveiða í Norðaustur-Atlantshafi á árinu 2012 lauk í gær án árangurs. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er enginn grundvöllur fyrir beitingu viðskiptaaðgerða gegn Íslandi vegna makrílveiða,“ segir Tómas H. Heiðar, aðalsamningamaður Íslands í viðræðum um makrílveiðar, í samtali við mbl.is, spurður um hótanir frá forystumönnum innan Evrópusambandsins um aðgerðir gegn Íslendingum og Færeyingum vegna makrílveiða þjóðanna innan eigin lögsögu en samningar hafa ekki náðst um veiðarnar við sambandið og Norðmenn. Síðast lauk viðræðum um málið í Reykjavík í gær án niðurstöðu.

Tómas segir ljóst að samkvæmt EES-samningnum sé aðilum hans heimilt að setja bann við löndun erlendra fiskiskipa á afla úr fiskistofnum sem samkomulag sé ekki um stjórnun á. „Ísland og Noregur hafa bæði ákvæði um slíkt bann í sínum lögum og við gerum að sjálfsögðu ekki athugasemd við að ESB setji sams konar bann. Hins vegar er ljóst að aðgerðir sem ganga lengra, t.d. viðskiptatakmarkanir, myndu brjóta í bága við EES-samninginn, WTO-samninginn og aðra alþjóðlega viðskiptasamninga. Hótanir um slíkar aðgerðir eru því ekki trúverðugar,“ segir hann.

Tómas segir að Evrópusambandið hafi ýjað að viðskiptaaðgerðum á þeirri forsendu að núverandi ofveiði úr makrílstofninum sé alfarið sök Íslendinga og Færeyinga. „Sú forsenda er einfaldlega röng þar sem allir aðilar málsins bera ábyrgð á stöðu mála, ekki síst ESB og Noregur. Í því sambandi er rétt að hafa í huga að ESB og Noregur hafa ákveðið makrílkvóta sér til handa sem nema samtals rúmlega 90% af þeim heildarafla sem Alþjóðahafrannsóknaráðið, ICES, hefur ráðlagt.“

Hann segir að sú ákvörðun, sem feli í sér að minna en 10% eru skilin eftir fyrir hina þrjá aðilana, það er Ísland, Færeyjar og Rússland, sé augljóslega ávísun á ofveiði úr stofninum og því fullkomlega óábyrg.

„Það er því sama hvernig á málið er horft. Það er enginn grundvöllur fyrir því að beita Íslendinga viðskiptaaðgerðum vegna makrílveiða sinna. Aðilar eiga að einbeita sér að því að finna sanngjarna lausn á makríldeilunni sem tekur tillit til lögmætra hagsmuna þeirra allra. Í því felst meðal annars að taka fullt tillit til hins gjörbreytta göngumynsturs makrílstofnsins en sem kunnugt er gengur hann árlega í mjög miklum mæli til norðvesturs í íslensku lögsöguna í fæðuleit og hefur umtalsverð áhrif á lífríkið,“ segir Tómas ennfremur.

Tómas H. Heiðar, aðalsamningamaður Íslands í viðræður um makrílveiðar.
Tómas H. Heiðar, aðalsamningamaður Íslands í viðræður um makrílveiðar. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina