Makríldeilan: Aðgerðir nái til allra sjávarafurða

Íslenskt fiskiskip á makrílveiðum. Úr myndasafni.
Íslenskt fiskiskip á makrílveiðum. Úr myndasafni. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það mun ekki standa á þingi Evrópusambandsins að grípa til harðra aðgerða gegn ríkjum utan sambandsins sem stunda ósjálfbærar og ábyrgðarlausar veiðar,“ hefur fréttavefurinn Fishupdate.com eftir Pat the Cope Gallagher, fulltrúa á þinginu, en honum hefur verið falið af sjávarútvegsnefnd þess að hafa umsjón með innleiðingu slíkra aðgerða vegna makríldeilunnar við Íslendinga og Færeyinga.

Ummæli Gallaghers féllu áður en fundi um lausn makríldeilunnar lauk í Reykjavík í gær án þess að niðurstaða fengist um skiptingu makrílkvótans fyrir þetta ár. Hvatti hann aðila málsins til þess að reyna að finna lausn á deilunni en tók hins vegar fram að útlit væri fyrir að viðræðurnar um málið yrðu enn eina ferðina árangurslausar.

Hann sagðist af þeim sökum ætla að leggja það til við sjávarútvegsnefnd Evrópusambandsþingsins þegar hún kæmi saman 29. febrúar næstkomandi að gengið yrði lengra en framkvæmdastjórn sambandsins hefur lagt til í aðgerðum vegna makríldeilunnar. Þannig yrðu þær látnar ná til alls sjávarfangs og vara sem framleiddar væru úr því.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur haft til skoðunar aðgerðir sem miða að því að óheimilt verði fyrir Íslendinga og Færeyinga að landa afla úr deilistofnum sem ekki gilda samningar um svo sem makríl. Gallagher vill hins vegar samkvæmt frétt Fishupdate.com sjá þær aðgerðir ná til alls afla og sjávarafurða.

„Það er einlæg von mín að það þurfi aldrei að grípa til þeirra aðgerða sem lagt hefur verið til. Hins vegar er ljóst að þær munu leiða til alvarlegra efnahagslegra afleiðinga fyrir ríki sem spila rússneska rúllettu með deilistofnana okkar,“ sagði Gallagher.

Pat the Cope Gallagher, fulltrúi á þingi Evrópusambandsins.
Pat the Cope Gallagher, fulltrúi á þingi Evrópusambandsins.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert