Örn Bárður tekinn af dagskrá

Ríkisútvarpið.
Ríkisútvarpið. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Hlustendum Rásar 1 brá mörgum hverjum í brún í gærkvöldi þegar lestur Passíusálma hófst, en í stað raddar Arnar Bárðar Jónssonar sóknarprests hljómaði rödd Péturs Gunnarssonar. Reyndist ekki um mistök að ræða en stjórnendur Ríkisútvarpsins ákváðu að taka Örn af dagskrá vegna framboðs hans til biskups.

Lestur Passíusálma hófst mánudaginn 6. febrúar sl., en þeir eru fluttir árlega á níu vikna föstu og hefur svo verið get síðan 1944. Á vef Ríkisútvarpsins segir að á undanförnum áratugum hafi margt þjóðkunnra manna, presta og leikmanna, lesið sálmana. „Fyrstur til að lesa þá var Sigurbjörn Einarsson biskup, en af öðrum lesurum má nefna Andrés Björnsson útvarpsstjóra, Jón Helgason prófessor, Sigurð Nordal, Halldór Laxness og Vigdísi Finnbogadóttur.“

Sama gildir um aðra dagskrárliði

Lesari í ár er Örn Bárður, sem er sóknarprestur við Neskirkju í Reykjavík. Hann hafði þegar lesið alla sálmana inn á upptökuband og tíu sálmum verið útvarpað þegar ákvörðun var tekin um að skipta Erni út. „Okkur fannst eðlilegt að taka hann út þar sem hann er kominn í framboð en með því gætum við jafnræðis milli hans og annarra sem eru í sömu stöðu,“ segir Sigrún Stefánsdóttir, dagskrárstjóri Ríkisútvarpsins.

Sigrún segir að það sama gildi um morgunbænir, sunnudagshugvekjur og messur; þeir sem eru í framboði til biskups taki ekki þátt í þessum dagskrárliðum fyrir Ríkisútvarpið.

En þó svo hætt hafi verið við Örn í ár er ekki þar með sagt að upptökurnar fari í súginn. „Við getum notað hann síðar, enda les hann alveg ljómandi vel,“ segir Sigrún. „En við töldum þetta eðlilegt.“

Ákveðið hefur verið að Pétur Gunnarsson lesi tíu sálma og svo taki annar lesari við. Sigrún segir að fyrirkomulaginu sé oft breytt milli ára. „Í fyrra vorum við með ungt fólk sem las og núna er hópur eldri borgara við æfingar og ætlar að taka upp passíusálma fyrir næsta ár. Það er skemmtilegt að breyta svona til.“

Almenningi finnst þetta skrítið

Sjálfur segist Örn Bárður verða að skilja stjórnendur Ríkisútvarpsins og löngun þeirra til að tryggja jafnræði. Hann segist engar athugasemdir gera við það að vera tekinn af dagskrá. „Ég er ekki með neinn uppsteyt og hreyfi engum andmælum. Stofnunin hefur sínar reglur og tekur sínar ákvarðanir. Ég veit þó að sumum finnst þetta svolítið stíft og skrítið, almenningi, en ég lýsi skilningi á þessu.“

Örn hefur ekki áhyggjur af því að upptökurnar verði ekki notaðar. „Þetta verður sett í salt og súr og kannski verður lesturinn bara bragðbetri þegar hann kemur upp úr tunnunum á næsta ári, eða hvenær sem það verður.“

Örn Bárður Jónsson.
Örn Bárður Jónsson.
Sigrún Stefánsdóttir
Sigrún Stefánsdóttir Morgunblaðið/G.Rúnar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert