„Þetta átti að vera innbrot“

Marcin Tomasz Lech fyrir dómi í dag.
Marcin Tomasz Lech fyrir dómi í dag. Morgunblaðið/Kristinn

Lögreglumennirnir sem komu að rannsókn að úraráninu hjá Michelsen úrsmiðum 17. október sl. heyrðu við aðalmeðferðina í dag Marcin Tomasz Lech, einn úraræningjanna, segja söguna í heild. Frásögn hans hafði ekki fengist áður við skýrslutöku. Hann sagði meðal annars að ránið hefði upphaflega átt að vera innbrot.

Marcin Tomasz Lech var yfirvegaður þegar hann svaraði spurningum Margrétar Unnar Rögnvaldsdóttur, aðstoðarsaksóknara hjá ríkissaksóknara, fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, við aðalmeðferð málsins. En ef vikið er að síðustu spurningu Margrétar fyrst, þá spurði hún hvers vegna Lech hefði ekki skýrt frá atvikum fyrr en núna, fyrir dómara.

„Af því að ég beið með að segja þetta, þurfti að hugsa aðeins málið. Ef ég hefði ekki hagað mér eins og ég gerði eftir ránið hefðu úrin aldrei fundist. Ég ætlaði að losa mig við þau.“

Voru teknir við að stela bíl

Raunar voru spurningar Margrétar fáar en saga Lechs lengri. Hún hófst klukkan tíu að föstudagskvöldi 7. október sl. Þá keyrðu fjórir pólskir menn frá heimabæ sínum og í átt að Kaupmannahöfn. Þangað voru þeir komnir um klukkan sex morguninn eftir. Þá skildi Lech mennina eftir á hóteli en hélt sjálfur áfram ferð sinni, því hann átti miða í Norrænu til Seyðisfjarðar. Hinir áttu flugfar til Reykjavíkur síðar á laugardeginum.

Síðdegis á laugardeginum var Lech kominn um borð í Norrænu og til Seyðisfjarðar um kl. 10.30 þriðjudaginn 12. október. Tolleftirlitið var strangt og því lagði hann af stað frá Seyðisfirði áleiðis til Reykjavíkur um miðjan dag. Og um klukkan tvö til þrjú aðfaranótt 13. október var hann kominn á áfangastað, á hótel í Síðumúla. Þar hitti hann samverkamenn sína að nýju.

Lech var hjá þeim um nóttina en skráði sig sjálfur inn á hótel í Kópavogi daginn eftir. „Þetta átti að vera innbrot, hinir höfðu ákveðið að brjótast inn að nóttu til. Planið breyttist svo hjá þeim, en af einhverri ástæðu gátu þeir ekki brotist inn að nóttu til en ákváðu þá frekar að fremja rán að degi til,“ sagði Lech. „Fyrst átti það að vera á föstudeginum, en [tveir samverkamanna] voru gripnir af eiganda bifreiðar sem þeir voru að reyna stela. Lögreglan kom og þá breyttist áætlunin aftur, og dagsetning ránsins var færð. Þeir vissu í raun ekki hvort þeir ætluðu að láta verða af ráninu yfir höfuð.“

Í frásögn sinni talaði Lech alltaf um sig og þá. Hann sagðist ekki hafa komið að skipulagningu ránsins á nokkurn hátt en hinir þrír hefðu ákveðið allt saman. „Þeir ætluðu að hugsa málið yfir helgina, því þeir áttu flug til baka á mánudeginum. Á sunnudeginum ákváðu þeir að fremja ránið. Þeir breyttu fluginu frá mánudegi til þriðjudags. Þeir ákváðu að hætta ekki við en gera þetta á mánudeginum.“

Skildi þá eftir í miðbænum

Þá lýsti Lech því að á mánudagsmorgninum hefði hann sótt mennina þrjá á hótel þeirra um klukkan níu um morguninn. Hann keyrði niður í miðbæ og lagði bíl hjá sínum hjá kirkju. Hann gat ekki nefnt kirkjuna en sagði hana stóra og í miðbænum. Menn gætu því gefið sér að um væri að ræða Hallgrímskirkju.

Hann sagðist hafa skilið mennina þrjá eftir þar en sjálfur farið aftur á hótelið sitt. „Milli hálfellefu og ellefu fékk ég símtal. Ég fór út fyrir hótelið og þeir komu þarna þrír en aðeins einn fer með mér inn á herbergi. Hann bað mig að koma með salernispappír og límband og byrja að pakka inn úrunum.“

Þeir pökkuðu öllum úrunum vandlega á hótelherberginu og földu þau vandlega í bílnum sem Lech kom á. Í hverri hurð földu þeir fjóra pakka og fleiri í húddinu, við aksturstölvu bílsins. Á meðan þessu stóð voru hinir í sundi. Það gerðu þeir Lech einnig.

Um kvöldið fór Lech svo aftur á hótelið til hinna þriggja. Hann kvaddi þá og fór aftur á sitt hótel. Þeir flugu svo frá Íslandi daginn eftir.

Handtekinn en sleppt strax

Fljótlega eftir að mennirnir voru farnir aftur til Póllands var bankað upp á hjá Lech, og nú fóru að renna á hann tvær grímur.

„Daginn eftir, það var þriðjudagur eða miðvikudagur, kom lögreglan til mín. Tveir þeirra sitja í dómsalnum. Þeir spurðu mig spurninga, svo vildu þeir fá að leita í bílnum. Þeir fóru með mig niður á höfn og gegnumlýstu bílinn, en slepptu mér svo lausum. Ég fór aftur á hótelið og hafði samband við strákana. Ég sagði þeim hvað gerðist en þeir sögðu mér að vera rólegur, ef lögreglan ætlaði að handtaka mig hefðu þeir gert það strax. Ég ætti bara að vera rólegur og bíða. Mig langaði að losa mig við úrin og ég hafði á tilfinningunni að verið væri að fylgjast með mér.“

Eftir þetta fór hann að keyra um bæinn til að athuga hvort verið væri að fylgjast með honum. Hann hafði aftur samband við samverkamenn sína sem sögðu honum enn að vera rólegur. „Ég beið í viku, til næsta miðvikudags, en þá kom sérsveitin og handtók mig á hótelinu.“

Að þessu sögðu vildi Margrét fá að vita betur um undirbúning ferðarinnar. Lech sagðist búa í sama hverfi og samverkamenn sínir og þeir hefðu verið að leita að einstakling sem ekki væri í fíkniefnum eða rugli. Einhverjum rólegum sem ekki hefði komist í kast við lögin. „Við hittumst og þeir buðu mér þetta. Ég sagðist ætla að hugsa málið, svo hittumst við aftur og ég samþykkti. Mig langaði að hætta við, ræddi þetta við bróður minn og að þetta væri kannski of mikil áhætta. En ég gat ekki hætt við.“

Hann sagðist ekkert vita um undirbúninginn, enginn hefði spurt hann álits, hvorki í Póllandi né þegar áætlanir breyttust í Reykjavík.

Laug að allri fjölskyldunni

Verjandi Lechs, Brynjólfur Eyvindsson, spurði hann einnig. Hann sagðist ekkert hafa fengið greitt fyrir ferðina en hann ætti að fá einhverja upphæð þegar hann kæmi til baka til Póllands. Hann sagðist hafa tekið verkið að sér vegna fjárhagsvandræða.

Þá sagði Lech að sér hefði ekki litist á málin þegar áætlunin breyttist úr því að vera innbrot í rán. Þá spurði Brynjólfur hvernig hann liti á málið í dag. „Hræðileg skömm. Ég laug að allri fjölskyldu minni, sagðist vera að fara til Svíþjóðar að leita að vinnu. Kærastan mín vissi þetta aðeins rétt fyrir handtöku. Þetta var ekki það sem ég ætlaði mér að gera.“

Frank Michelsen úrsmiður með úrin sem tekin voru úr versluninni …
Frank Michelsen úrsmiður með úrin sem tekin voru úr versluninni í vopnuðu ráni. mbl.is/Júlíus
Frá blaðamannafundi lögreglunnar þar sem þýfið úr Michelsen-ráninu var opinberað.
Frá blaðamannafundi lögreglunnar þar sem þýfið úr Michelsen-ráninu var opinberað. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert