Ákærð fyrir fjárdrátt hjá Kaupþingi

Sérstakur saksóknari hefur ákært konu á sjötugsaldri sem starfaði hjá Kaupþingi fyrir að hafa dregið sér rúmar 50 milljónir króna á fjögurra ára tímabili. Hún gæti átt yfir höfði sér allt að sex ára fangelsi. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.

Konan starfaði við einkabankaþjónustu á eignastýringarsviði Kaupþings. Á tímabilinu frá 30. apríl árið 2004 til 24. janúar árið 2008, er hún ákærð fyrir að hafa dregið sér rétt rúmar 50 milljónir króna.

Konan aðstoðaði viðskiptavini bankans við að gefa út bæði skuldabréf og víxla, og voru milljónirnar 50 hluti söluandvirðis þeirra. Konan er sökuð um að hafa millifært peningana af bankareikningum kaupenda bréfanna, inn á sinn eigin reikning, í stað þess að ráðstafa þeim í þágu seljendanna.

Hún er ákærð fyrir að hafa gert þetta alls 18 sinnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert