Ögmundur: Ógeðfellt aðlögunarferli

Frá flokksráðsfundi VG í Reykjavík fyrr í dag.
Frá flokksráðsfundi VG í Reykjavík fyrr í dag. Ómar Óskarsson

Aðildarferlið vegna umsóknar Íslands um aðild að ESB er í raun aðlögunarferli sem tekur mið af inngöngu Austur-Evrópuríkja í sambandið í tveim lotum á síðasta áratug. Þetta er skoðun Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra sem fullyrti á flokksráðsfundi VG nú síðdegis að ferlið væri mun kostnaðarsamara og ágengara en lagt var upp með.

„Ég er einn þeirra sem greiddu atkvæði með því að við gengjum til viðræðna við Evrópusambandið. Ég hef ekki horfið frá þeirri afstöðu sem ég tók þá, þótt það eigi við um mig, eins og marga aðra, hygg ég, að finnast þetta ferli hafa orðið allt annað en ég ætlaði, miklu dýpra, miklu kostnaðarsamara, miklu frekara og miklu ágengara.“

„Hvers vegna segi ég þetta?“ spurði Ögmundur og rökstuddi mál sitt.

„Við fengum ágæta áminningu um daginn. Hún var frá utanríkismálanefnd Evrópusambandsins. Hún var með skilaboð til Íslands. Og hver voru þessi skilaboð - fyrir utan það að gefa okkur einkunn fyrir það hvernig við stæðum okkur í því almennt að markaðsvæða okkar samfélag og hvetja okkur til þess að ganga enn harðar fram í þeim efnum, meðal annars með því að opna á markaðsvæðingu orkugeirans, raforkugeirans?“ spurði Ögmundur. Hann svaraði svo spurningunni og sagði að í skilaboðunum fælist „hvatning frá Brussel um að fara að drífa í þessu, að opna fyrir erlenda fjárfestingu í sjávarútvegi [og] hvatning til þess að fá okkur inn sem allra fyrst vegna þess að hagsmunum Evrópusambandsins væri þá betur gætt á norðurskautinu og á norðurslóðum“.

„Það væri mikilvægt fyrir Evrópusambandið að fá Ísland undir sína regnhlíf svo hægt væri að gæta betur að hagsmunum, ekki okkar, heldur hagsmunum Evrópusambandsins, ekki náttúrunnar, nei hagsmunum Evrópusambandsins á norðurslóðum.“

Innilegt faðmlag Íslendinga

Ögmundur gagnrýndi jafnframt afstöðu ESB til samstarfs Íslands við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. 

„Það er ástarjátning í yfirlýsingu utanríkismálanefndar Evrópusambandsins til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Því er sérstaklega fagnað hve innilegt faðmlag Íslendinga var við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn á liðnum mánuðum og árum. Ógeðfelldust fannst mér skilaboðin samt, sem send voru til Jóns Bjarnasonar, þar sem fagnað var að hann væri horfinn úr ríkisstjórn.

Utanríkismálanefnd Evrópusambandsins nóterar að það hafi orðið ráðherraskipti 31. desember. En segir jafnframt að nú sé þess að vænta að ásetningur ríkisstjórnarinnar verði enn harðari að laga sig að óskum Evrópusambandsins en áður var. Þetta er ógeðfellt. En ekkert að þessu kemur mér á óvart. Ekki neitt.

Það kemur mér ekki heldur á óvart þegar við erum minnt á að ef við göngum í Evrópusambandið [...] afsölum við okkur rétti til sjálfstæðrar utanríkisstefnu. Munið þið Olaf Palme og hvað Svíarnir voru flottir? Hvar eru Svíar nú? Þeir eru að sjálfsögðu í sameiginlegri utanríkisstefnu Evrópusambandsins. Að sjálfsögðu. Einu fyrirvararnir sem við gerum snúa í reynd að herleysi okkar. Ekkert annað. Við verðum farþegar í Evrópuhraðlestinni að öðru leyti.“

Tilgangslaust að kíkja í pokann 

Ögmundur sagði öllum ljóst hvað aðild að ESB fæli í sér.

„Ég get nefnt aðra þætti sem koma fram í þessum ályktunum frá utanríkismálanefnd Evrópusambandsins. Ég ætla ekki að tyggja það upp hér frekar. Við þekkjum þessar áherslur. Það eru sumir sem  tala um að við þurfum að sjá í pokann, að sjá hvað komi út úr viðræðunum við Evrópusambandið. Að sjálfsögðu vitum við hvað er í pokanum.

Það er þetta hérna sem þau eru að minna okkur á að hraða okkur að gera, að laga okkur að grunnregluverki Evrópusambandsins á öllum sviðum, hvort sem það snýr að fjárfestingu í sjávarútvegi, að opna fyrir markaðsvæðingu orkufyrirtækjanna eða annað. En við mörg vildum verða við óskum þeirra sem halda að það sé eitthvað að finna í pokanum um að fá þá að sjá ofan í hann,“ sagði Ögmundur og veifaði skýrslu utanríkismálanefndar ESB.

„En ég segi, hvert er langlundargerð okkar í þessum efnum? Hversu lengi ætlum við að láta niðurlægja okkur með yfirlýsingum af því tagi sem ég var að vitna í hér? Og með því að láta okkur setja mikla fjármuni í þetta ferli allt saman.

Ég hef oft sagt og skrifaði það haustið 2010 að við ættum að fá efnislega niðurstöðu í þá þætti sem mestu varða fyrir Ísland þar sem menn vilja sjá ofan í pokann. Að fá efnislega niðurstöðu fram og ganga síðan til lýðræðislegra kosninga um innihaldið.“

Falsrök nauðhyggjumanna

Með ofangreind atriði í huga vill Ögmundur að ríkisstjórnin taki af skarið og geri þjóðinni kleift að kjósa um aðild að ESB. 

„Nú legg ég til sem ég hef áður gert, margoft, að Vinstrihreyfingin - grænt framboð segi við Evrópusambandið: Við viljum fá lyktir í þessar viðræður áður en gengið verður til næstu alþingiskosninga og í síðasta lagi á þeim tímapunkti verði málið gert upp í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þá segja nauðhyggjumenn: Þetta er ekki hægt, Evrópusambandið leyfir þetta ekki. Evrópusambandið leyfði það 1994 gagnvart Noregi. Það var vegna þess að Noregur var hluti af EES. Reyndar erum við enn meiri hluti vegna þess að margt hefur gerst á þessum tíma.

Við höfum lagað okkur að regluverkinu að mestu leyti en það á að setja okkur inn í ferli Balkanskagans og [innsk. ríkja] Austur-Evrópu sem hvergi höfðu komið nálægt EES og þurft[u] mikinn tíma. Ef Ísland segir að við ætlumst til þess og við eigum að segja það við okkar samningamenn og samninganefnd ESB að við viljum fá niðurstöður í þessa viðræður, efnislegar niðurstöður [...] og kjósa síðan um málið og koma þessu óþurftarmáli út úr heiminum,“ sagði Ögmundur og uppskar dynjandi lófatak í vestursal Grand Hótels. 

mbl.is