Kom til dyra vopnaður hnífi

Lögreglan og sérsveit hennar að störfum
Lögreglan og sérsveit hennar að störfum mbl.is/Kristinn

Maðurinn sem handtekinn var í Reykjanesbæ seint í gærkvöldi, og var með skotvopn, hnífa og sprengiefni í íbúð sinni, tók á móti sérsveitarmönnum vopnaður hnífi. Hann var yfirbugaður skjótt og handtekinn. Ekki er vitað hvað honum gekk til en mannsins bíða yfirheyrslur í dag. 

Ábending frá árvökulum notanda samfélagssíðunnar Facebook leiddi til þess að maðurinn var handtekinn. Lögregla fékk ábendingu um undarlegt háttalag mannsins á opinni Facebook-síðu hans. Lögreglumenn tóku ábendinguna strax alvarlega og fóru yfir efnið á síðunni. Þar var að finna myndir sem settar höfðu verið inn skömmu áður en ábendingin barst en á þeim má sjá manninn handleika vopn og sprengiefni, auk þess sem myndir eru af því þegar hann sprengir upp fiskikar.

„Við töldum fulla ástæðu til að fara strax í málið og leituðum eftir úrskurði hjá héraðsdómara,“ segir Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum. „Þá óskuðum við eftir aðstoð frá sérsveit ríkislögreglustjóra og farið var inn í íbúð mannsins rétt fyrir miðnættið. Sérsveitin fór inn, handtók manninn, tryggði vettvang og gerði sprengjuleit. Svo tóku menn frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum við.“

Maðurinn sem fæddur er árið 1983 tók á móti sérsveitarmönnum vopnaður hnífi. „Hann otaði honum eitthvað að mönnum en var yfirbugaður strax,“ segir Skúli. Maðurinn á að baki nokkurn sakaferil en Skúli segir að lítið hafi borið á honum undanfarin fimm ár.

Með hlaðna byssu og tilbúna rörasprengju

Í íbúð mannsins fundust sprengiefni, efni til sprengjugerðar, hnífar og skotvopn. Um var að ræða 22. kalíbera skammbyssu, sem einnig gengur undir nafninu kindabyssa. Skúli segir nafnið þó ekki eiga að draga úr alvarleika málsins. „Þetta er bara 22. kalíbera byssa og hún var hlaðin. Byssur sem þessar eru notaðar meðal annars til að aflífa dýr, þannig að þetta er ekkert leikfang.“

Sprengjan sem fannst var svonefnd rörasprengja og var hún með kveikiþræði, og því tilbúin til notkunar. „Það er spurning hvort hann hafi notað svipaðar sprengjur áður, en það var eitt af því sem vakti athygli okkar á Facebook-síðu hans, að hann var að sprengja upp fiskikar.“ Einnig fundust handblys og neyðarblys í íbúðinni.

Þá var lagt hald á töflur sem enn á eftir að rannsaka og einnig sprautu með óþekktum vökva.

Næst á dagskrá er að yfirheyra manninn, og reyna að finna út hvað honum gekk til, til dæmis með því að opinbera sig með þeim hætti sem hann gerði.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert