Skortur á forsetaefnum

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, á blaðamannafundi í fyrra.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, á blaðamannafundi í fyrra. mbl.is/Árni Sæberg

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, bjóst við að fram kæmu öflugir frambjóðendur sem gætu axlað þá ábyrgð að gegna embætti forseta Íslands. Fjölmiðlar hefðu þó tengt ýmsa einstaklinga við embættið að undanförnu.

„Ég hefði satt að segja óskað eftir því að bæði ég og þjóðin þyrftum ekki að vera nú í lok febrúar í þessum sporum, heldur hefði á undanförnum vikum eða mánuðum myndast ... ríkur vilji að baki tveggja eða þriggja frambjóðenda sem ... gætu axlað þá ábyrgð sem felst í embætti forseta,“ sagði forsetinn m.a. á Bessastöðum í gær.

Fjölmiðlar leiddu fram forsetaefni

Á sama blaðamannafundi lét forsetinn þau orð falla að fjölmiðlar hefðu nefnt ýmsa til sögunnar sem hugsanleg forsetaefni. Orðrétt sagði forsetinn:

„Og það hefur komið mér á óvart hvað þunginn í þeirri umræðu og þeim kröfum gagnvart mér hefur verið mikill. Ég átti satt að segja von á því þegar ég væri búinn að lýsa minni afstöðu - jú, jú - að þá myndu margir segja að þeir vildu gjarnan að ég héldi áfram en svo myndi myndast sjálfstætt ferli þar sem menn færu að huga að öðrum framboðum og fjölmiðlarnir - og ég þakka fyrir það - tóku myndarlegan þátt í því með því að leiða fram á völlinn allskonar einstaklinga og gefa fólki kost á því að meta þá stöðu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert