Laug ítrekað að tengdafjölskyldunni

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Agné Krataviciuté laug ítrekað að tengdafjölskyldu sinni um fjölskylduhagi sína og ástæðu þess að hún flutti til Íslands. Þetta sögðu bæði fyrrverandi kærasti hennar og móðir hans, fyrrverandi tengdamóðir Agné, fyrir dómi í dag. Hvorugt sagðist geta ímyndað sér hvers vegna hún hefði deytt barn sitt á Hótel Fróni í júlí 2011.

„Ég veit ekki hvað gerðist en mamma mín talaði við mömmu hennar og það kom í ljós að allt sem hún sagði mér var lygi,“ sagði Deividas Markincevicius, fyrrverandi unnusti Agné, fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Foreldrar hennar ekki til landsins

Deividas og móður hans bar saman um að sambandið við Agné hefði verið mjög gott. Þau Deividas hafi verið mjög náin og hamingjusöm. Eftir á hafi hinsvegar komið í ljós að það sem hún sagði tengdafjölskyldu sinni hafi ekki verið sannleikanum samkvæmt. Til dæmis hefði hún sagst hafa þurft að hætta í skóla í Litháen vegna þess að fjölskylda hennar gæti ekki greitt fyrir námið. Móðir hennar segði hinsvegar nú að peningar hefðu ekki verið vandamál og námsgjöldin greidd fyrirfram. Þá mun Agné hafa sagt við komuna til Íslands að hún hafi komið hingað áður og að hún ætti ættingja á Selfossi, en hvorugt sé rétt.

Foreldrar Agné hafa ekki komið hingað til lands eftir að hún var ákærð fyrir að deyða nýfætt barn sitt. Framburður Agné sjálfrar í morgun var á þá leið að foreldrar hennar væru enn í áfalli en að þau veittu henni stuðning sinn í gegnum Skype.

Ekki með nein svör

Tengdamóðir Agné hefur verið í sambandi við móður hennar síðan málið kom upp. Hún játaði því að sér þætti skrýtið að foreldrar Agné hefðu ekki komið hingað til að hitta dóttur sína og styðja. Aðspurð hvort hún kunni einhverjar skýringar á því hvað gerðist þennan dag á Hótel Fróni svaraði hún:

„Ég hugsa stanslaust um þetta, en ég er ekki með nein svör, ég get ekki skilið hvers vegna hún hagar sér eins og hún hagar sér. Ég er í sambandi við mömmu hennar, ég skil hana því hún er líka mamma og ég get sett mig í hennar spor. Og það sem kom í ljós er að hún lýgur mjög mikið. Það er allt lygi í kringum hana. Hvernig hún kom til Íslands, það var allt byggt á lygi.“

Fréttir mbl.is frá málflutningnum í dag:

Barnsföðurnum líður mjög illa

Neitar að hafa deytt barnið

mbl.is

Bloggað um fréttina