Svipaður fjöldi fóstureyðinga

mbl.is/Hjörtur

Árið 2010 voru framkvæmdar 976 fóstureyðingar hérlendis en það er svipaður fjöldi og árin tvö á undan (981 árið 2009 og 959 árið 2008). Nokkuð færri aðgerðir voru hins vegar framkvæmdar á árunum 2004–2007. Þetta kemur fram í Talnabrunni Landlæknisembættisins.

Sú mælistika sem jafnan er notuð við athugun á fóstureyðingum og í samanburði milli landa er hlutfall fóstureyðinga af fæðingum. Árið 2010 voru framkvæmdar tæplega 200 fóstureyðingar fyrir hverja 1.000 lifandi fædda hér á landi en þetta hlutfall hefur lítið sveiflast undanfarin fimm ár. Á árunum 1997-2003 voru hins vegar framkvæmdar nokkuð fleiri fóstureyðingar á hverja 1.000 lifandi fædda, eða um 220–230 fóstureyðingar.

Meginþorri allra fóstureyðinga á landinu er framkvæmdur á kvennadeild Landspítalans. Þar voru framkvæmdar tæplega 90% allra fóstureyðinga árið 2010 en Sjúkrahúsið á Akureyri framkvæmdi næstflestar aðgerðir það sama ár, eða 7,6% allra fóstureyðinga. Sú þróun hefur smám saman átt sér stað hér á landi að þeim stöðum þar sem fóstureyðingar eru framkvæmdar hefur farið fækkandi.

Í núgildandi lögum um fóstureyðingar nr. 25/1975 er kveðið á um að fóstureyðing skuli framkvæmd sem fyrst á meðgöngutímanum, helst innan 12 vikna meðgöngu. Eftir 16. viku er fóstureyðing eingöngu heimiluð af læknisfræðilegum ástæðum. Stærsti hluti þeirra kvenna sem gengist hafa undir fóstureyðingu á undanförnum árum hafa verið gengnar 12 vikur eða skemur þegar aðgerð fór fram. Einungis 4% aðgerða sem framkvæmdar voru árið 2010 fóru fram eftir meira en 12 vikna meðgöngu. Það er svipað hlutfall og árin á undan.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert