Verða framseldir til Íslands

Frá verslun Franks Michelsen.
Frá verslun Franks Michelsen. mbl.is/Guðmundur Rúnar

Tveir Pólverjar sem flúðu land eftir að hafa í félagi við tvo aðra rænt úraverslun Franks Michelsens í október sl. voru handteknir í Sviss í lok febrúar. Ríkissaksóknari hefur farið fram á að mennirnir verði framseldir hingað til lands. Einn fjórmenninganna var í dag dæmdur í fimm ára fangelsi vegna ránsins en sá fjórði er líklega enn í Póllandi.

Alþjóðleg handtökuskipun hafði verið gefin út á hendur mönnunum þremur sem flúðu land. Svissnesk stjórnvöld hafa nú framsalsbeiðnina til meðferðar. Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir aðstoðarsaksóknari segir að mennirnir verði framseldir, hins vegar sé enn ekki ljóst hvenær.

Fékk fimm ára dóm

Mennirnir þrír fóru til Póllands skömmu eftir ránið. Þar hafði lögregla afskipti af þeim en af því að mennirnir eru pólskir ríkisborgarar, og Ísland ekki aðili að evrópsku handtökuskipuninni, var ekki hægt að fá þá framselda þaðan. Pólska lögreglan gat því ekki haldið mönnunum og þeir frjálsir menn þar í landi af þessum sökum.

En í febrúar hafði svissneska lögreglan afskipti af tveimur mannanna og þar sem þeir eru ekki svissneskir ríkisborgarar geta íslensk yfirvöld farið fram á framsal þaðan.

Margrét Unnur segir að þegar mennirnir komi til Íslands verði farið fram á gæsluvarðhald yfir þeim. Í kjölfarið fari málið í sinn hefðbundna farveg innan dómskerfisins hér á landi.

Alþjóðalögreglan Interpol hafði í nóvember að ósk íslensku lögreglunnar lýst eftir þremur Pólverjum, sem grunaðir voru um að hafa framið rán í verslun Franks Michelsens við Laugaveg í Reykjavík hálfum mánuði fyrr.

Mennirnir heita Grzegorz Marcin Novak, 34 ára, Pawel Jerzy Podburaczynski, 36 ára, og Pawel Artur Tyminski, 33 ára. Ekki er hægt að svo stöddu að gefa upp hvaða tveir hafa nú verið handteknir í Sviss.

Lögreglunni tókst á nokkrum dögum að upplýsa rán í verslun Franks Michelsens úrsmiðs. Einn maður var fljótlega handtekinn vegna aðildar að ráninu og fannst allt þýfið í bíl hans.

Héraðsdómur Reykjavíkur féllst í dag á allar kröfur í máli ákæruvaldsins gegn manninum, Marcin Tomasz Lech, og dæmdi hann í fimm ára fangelsi, bíll hans gerður upptækur og honum gert að greiða 14 milljónir til Vátryggingafélags Íslands.

Lech játaði þátt sinn í málinu, og lýsti fyrir dómi hvernig hann kom að skipulagningu ránsins og að hann hefði komið hingað til lands gagngert til að flytja ránsfenginn úr landi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert