Kröfugerð ESA svarað vegna Icesave-málsins

Stjórnvöld vísa kröfum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) alfarið á bug vegna Icesave-málsins og krefjast þess að EFTA-dómstóllinn hafni kröfugerð stofnunarinnar. Þetta kemur fram í tilkynningu utanríkisráðuneytisins en íslensk stjórnvöld sendu í gær greinargerð sína vegna málsins til dómstólsins þar sem fram koma viðbrögð stjórnvalda við stefnu ESA. Greinargerðin leggur um leið grunninn að málsvörn Íslands.

Málsvörn Íslands er í stuttu máli sú að tilskipun Evrópusambandsins um innistæðutryggingar hafi verið innleidd hér á landi með réttum hætti sem og fyrirkomulag íslenska innistæðutryggingasjóðsins. Ekkert innistæðutryggingakerfi standist allsherjarhrun. Málflutningi ESA um mismunun er ennfremur hafnað enda hafi hvorki íslenska innistæðutryggingakerfið né ríkið greitt innistæðueigendum hér á landi og eignir Landsbanka Íslands muni greiða bæði kröfur innlendra og erlendra innstæðueigenda.

Fram kemur í tilkynningunni að gert sé ráð fyrir að ESA fái nú frest til að bregðast við greinargerð íslenskra stjórnvalda með því að leggja fram andsvör. Íslensk stjórnvöld fái síðan aftur tækifæri til að leggja fram gagnsvör. Jafnframt fái önnur EFTA-ríki og ríki Evrópusambandsins tækifæri til að taka þátt í málsmeðferðinni og sama eigi við um framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Gera megi ráð fyrir að munnlegur málflutningur fyrir EFTA-dómstólnum fari fram síðari hluta þessa árs.

Þá er þess getið að röksemdir íslenskra stjórnvalda hafa í meginatriðum komið fram í fyrri bréfaskiptum við ESA. Hins vegar hafi síðustu vikur verið unnið að því að skerpa enn frekar á vörnum Íslands og bæta við efnislegum rökum í ljósi stefnu ESA til EFTA-dómstólsins.

Úr fréttatilkynningu utanríkisráðuneytisins:

Samandregið eru málsástæður Íslands eftirfarandi:

Tilskipun um innstæðutryggingar

(1) ESA byggir á röngum skilningi á eðli svokallaðrar efndaskyldu („obligation of result“). Innstæðutilskipunin var réttilega innleidd á Íslandi og starfsemi íslenska innstæðutryggingasjóðsins var með þeim hætti sem ætlast var til og almennt gerist í Evrópu.

(2) Ekkert innstæðutryggingakerfi stenst allsherjar bankahrun og ljóst er af lögskýringargögnum og ýmsum úttektum að ekki er til þess ætlast. Við hrun bankakerfis þarf að grípa til annarra aðgerða. Það var gert á Íslandi með því að setja neyðarlögin og stofnsetja á grundvelli þeirra nýja banka. Allir innstæðueigendur í innlendum sem erlendum útibúum fengu forgangsrétt við skipti á búum gömlu bankanna. Með því hefur verið tryggt að enginn innstæðueigandi varð lakar settur.

(3) Lagðar eru fram skýrslur frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands sem sýna glögglega að hvorki innstæðutryggingakerfin né ríkin sjálf geta fjármagnað greiðslur til innstæðueigenda við hrun bankakerfis. Það eitt sýnir að ríkin hafa svigrúm til að bregðast við slíkum áföllum með mismunandi aðgerðum.

(4) Málsókn ESA byggir í raun á því að íslenska ríkið hefði þurft að leggja tryggingasjóðnum til peninga ef eignir hans dugðu ekki til. Enga slíka skyldu er að finna í tilskipuninni og ekkert ríki gerir ráð fyrir slíkum skuldbindingum. Ef þær skyldur væru til staðar hefur nú verið reiknað út að í bankahruni yrði kostnaður Evrópusambandsríkja að meðaltali 83% af landsframleiðslu þeirra.

(5) Lögskýring ESA myndi því í alvarlegri kreppu leiða til hættu á greiðsluþroti ríkja og samfélagslegs uppnáms í kjölfar þess. Lögskýringin er þess vegna í beinni andstöðu við reglur EES-réttar um að lög eigi að vera skýr og beiting þeirra fyrirsjáanleg, enda hvergi minnst á ábyrgð ríkja í innstæðutryggingatilskipuninni sjálfri.

(6) Lögskýring ESA er í andstöðu við meginreglur á EES-svæðinu um bann við ríkisaðstoð, en sjálfkrafa ábyrgð ríkja á innstæðuskuldbindingum banka myndi leiða til röskunar á samkeppnisstöðu. Ríki hafa sótt um leyfi til ríkisaðstoðar við ýmsar aðgerðir í bankakreppunni. Enginn hefur byggt á því að ekki  þurfi að gera það vegna þess að sjálfkrafa ábyrgð sé fyrir hendi. Það eitt sýnir skýrt að skyldan verður ekki ráðin af tilskipuninni.

(7) Innstæðueigendur í Bretlandi og Hollandi fengu greitt frá tryggingakerfum þeirra ríkja. Tryggingasjóðirnir fá greiðslur úr búi Landsbankans og því mun enginn skaðast.

Óviðráðanlegar aðstæður

(8) Ef dómstóllinn fellst á sjónarmið ESA um skilning á tilskipuninni er byggt á því að sérstakar og óviðráðanlegar aðstæður („force majeure“) leiði til þess að skylda ríkisins falli niður.

(9) Tryggingafjárhæðin nemur jafnvirði 650 milljarða íslenskra króna, eða öllum skatttekjum ríkisins í eitt og hálft ár. Útilokað var fyrir íslensk stjórnvöld á einu ári að útvega slíka fjármuni í kjölfar bankahrunsins, en ESA byggir á því að meint brot hafi verið fullframið í október árið 2009.

Mismunun

(10) Kröfur ESA eru byggðar á misskilningi. Innstæðutryggingakerfið á Íslandi greiddi ekki innstæðueigendum hér á landi. Íslenska ríkið gerði það ekki heldur. Því hefur engin mismunun átt sér stað innan innstæðutryggingakerfisins eða með ráðstöfun ríkisfjár. Eignir Landsbankans greiða bæði kröfur innlendra og erlendra innstæðueigenda.

(11) Ef skylda skylda ríkisins byggir ekki á tilskipuninni sjálfri getur hún ekki kviknað vegna aðgerða við endurskipulagningu íslenska bankakerfisins. Endurskipulagning íslenska bankakerfisins var nauðsynleg aðgerð og fól í sér að halda innstæðureikningum opnum. Innstæður í erlendum útibúum voru tryggðar eftir því sem unnt var með því að tryggja þeim forgangsrétt við skipti gömlu bankanna.

(12) Mismunandi aðferðir voru fullkomlega réttlætanlegar. Endurskipulagning íslenska bankakerfisins með forgangsrétti innstæðna við stofnsetningu nýju bankanna hefur nú þegar verið viðurkennd af ESA og Hæstarétti sem nauðsynleg aðgerð til að koma í veg fyrir kerfishrun.

(13) Algjörlega útilokað var að ráðast í samskonar aðgerðir vegna innstæðueigenda í Bretlandi og Hollandi. Þarlend yfirvöld höfðu kyrrsett eignir útibúanna og greiðslukerfi á milli Íslands og umheimsins var hrunið. Gjaldeyrisforði Íslands hefði ekki dugað nema fyrir broti af umræddum innstæðum. Þessum aðstæðum er lýst í sérstakri skýrslu Seðlabanka Íslands sem lögð er fram með greinargerðinni. Þá var ljóst að stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi höfðu þá þegar gripið til aðgerða til að vernda hagsmuni  neytenda og bankakerfi þeirra landa riðuðu ekki til falls með sama hætti og hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert