Kjörfundur í biskupskjöri er hafinn. Atkvæðaseðlar voru póstlagðir til kjörmanna síðastliðinn föstudag. Í dag hafa þeir fyrstu af 502 kjörmönnum í biskupskjöri skilað atkvæði sínu á Biskupsstofu, en skila má atkvæði með því að koma með það á Biskupsstofu eða póstleggja það.
Frestur til að skila atkvæði á Biskupsstofu eða í póst rennur út 19. mars. Atkvæði sem póstlögð verða eða móttekin á Biskupsstofu eftir þann dag verða ekki talin gild, segir í tilkynningu frá Biskupsstofu.
Atkvæði verða talin föstudaginn 23. mars. Hljóti enginn meirihluta atkvæða verður önnur umferð þar sem valið verður milli þeirra tveggja sem flest atkvæði hlutu. Verða kjörmönnum þá sendir nýir kjörseðlar. Stefnt er að biskupsvígslu sunnudaginn 24. júní 2012.