Heilabilun af völdum áfengisneyslu

Af Landakotsspítala.
Af Landakotsspítala. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að vistmaður á Landakotsspítala í Reykjavík verði sviptur sjálfræði. Maðurinn er haldinn heilabilun sem stafar af langvinnri og þungri áfengisneyslu.

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í síðasta mánuði segir að börn mannsins fari fram á sviptingu sjálfræðis. Lagt var fyrir dóminn vottorð yfirlæknis á heilabilunardeild Landspítala en í því segir að heilabilunin einkennist af miklu innsæis- og dómgreindarleysi, íspuna og töluverðu minnisleysi. „Þá sjái hann vegna innsæisleysis ekkert því til fyrirstöðu að neyta áfengis þrátt fyrir heilsutjónið sem áfengisneysla hefur valdið honum.“

Maðurinn var sviptur fjárræði í janúar en í vottorði um heilsu hans vegna þeirrar sviptingar kemur fram að maðurinn sé ekki meðvitaður um, að hann sé ófær um að halda heimili og um persónulega umhirðu.

Þá er frá því greint að maðurinn hafi komið fyrir dóminn og hafi framganga hans verið mjög í samræmi við það sem segir í læknisvottorðum.

Þegar til alls var litið þótti dóminum vafalaust að maðurinn væri ófær um að ráða persónulegum högum vegna heilabilunar og nauðsynlegt sé að svipta hann sjálfræði til þess að veita honum læknisþjónustu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert