„Ég stend við hvert orð“

Fjölmiðlakonan og rithöfundurinn Þóra Tómasdóttir.
Fjölmiðlakonan og rithöfundurinn Þóra Tómasdóttir. mbl.is/RÚV

 „Ég stend við hvert orð í umfjöllun Nýs lífs um Jón Baldvin,“ segir Þóra Tómasdóttir, ritstjóri tímaritsins og höfundur greinar um samskipti Jóns Baldvins við systurdóttur eiginkonu hans. „Kjósi Jón Baldvin að gera mig að sökudólgi í málinu er hann að gera aukaatriði að aðalatriði og beina athyglinni frá eigin gjörðum.“

Þóra sendi fjölmiðlum í dag yfirlýsingu í kjölfar þess að Jón Baldvin Hannibalsson og Bryndís Schram, eiginkona hans, gagnrýndu í vinnubrögð Þóru, við vinnslu greinar sem birtist í síðasta tölublaði Nýs lífs, þar sem fjallað var um bréfaskriftir hans til Guðrúnar Harðardóttur.

„Jón Baldvin telur mig stunda óheiðarleg vinnubrögð og stinga málsgögnum sem kynnu að vera honum í hag undir stól. Það er ekki rétt. Ríkissaksóknari taldi Jón Baldvin kunna að hafa brotið íslensk lög með kynferðislegum bréfaskrifum til unglingsstúlku. Á grundvelli þeirrar niðurstöðu ríkissaksóknara var umfjöllun Nýs lífs unnin,“ segir Þóra. Hún segir augljóst á nýbirtum greinum Jóns Baldvins og Bryndísar að þau telji að afsökunarbeiðni Jóns Baldvins hefði átt að duga Guðrúnu og koma í veg fyrir að hún segði frá málinu opinberlega. „Guðrún var hinsvegar annarrar skoðunar og taldi málið eiga erindi við almenning. Afsökunarbeiðni Jóns Baldvins til Guðrúnar kemur ekki í veg fyrir að upplýst sé um verknaðinn í Nýju lífi.“

Þóra segir að hún hafi ekki orðið við kröfu Jóns Baldvins um að fá að lesa umfjöllun Nýs lífs áður en hún birtist þar sem hún taldi ekki rétt að maður sem samkvæmt ríkissaksóknara kynni að hafa brotið lög fengi að lesa frétt um efnið áður en hún birtist. „Ég virði hinsvegar andmælarétt hans fullkomlega og hef kallað eftir viðbrögðum hans við umfjölluninni. Athugasemdir hans og gagnrýni birtist í næsta tölublaði Nýs lífs.“

Hún segir að málið snúist um háttsemi Jóns Baldvins sem sendiherra enda hafi hann skrifað bréfin á bréfsefni sendiráðsins. „Ekki síður varðar það almannahag að upplýsa um málsferðina en augljóst er að hún var tafin af öflum innan utanríkisráðuneytisins, hvort sem það var að frumkvæði Jóns Baldvins eða annarra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert