Vara við versnandi veðri

Veður fer versnandi, einkum um landið vestanvert, síðdegis. Í tilkynningu frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar segir að það hvessi og þá nái að hlána á láglendi eftir snjómuggu um miðjan daginn.

Gera má ráð fyrir hríðarkófi á flestum fjallvegum frá Hellisheiði og Lyngdalsheiði í suðri, vestur um og norður á Vatnsskarð og Þverárfjall í kvöld.

Búast má við snörpum vindhviðum við fjöll á Suður- og Vesturlandi í dag.

mbl.is