„Í öðru orðinu eigum við að vera að hugsa um umhverfisvernd og þetta dýrmæta og fallega land en svo eigum við að grafa skurði til þess að urða sorp.“
Þetta segir Eygló Kristjánsdóttir, sveitarstjóri Skaftárhrepps, um nýjar breytingar á reglugerð um brennslu úrgangs sem fela það í sér að sérákvæði um starfandi sorpbrennslustöðvar hafa verið felld úr gildi.
„Þessi stefna gengur ekki upp, það verður að taka heildstætt á málinu fyrir allt landið í heild,“ segir Eygló en að sögn hennar verður sorpbrennslustöðinni á Kirkjubæjarklaustri sennilega lokað 1. desember næstkomandi ef engin stefnubreyting verður af hálfu stjórnvalda í þessu máli.
„Það er mjög sorglegt að á tíu árum séu algjör umskipti. Stöðin er opnuð fyrir tíu árum sem besti kosturinn við förgun á sorpi,“ segir Eygló sem telur þessi umskipti fáránleg og bætir við: „Við erum með heljarinnar fjárfestingar og hvað eigum við að gera við lánin á þessu? Hverfa þau?“ Að sögn Eyglóar kostar svona sorpbrennslustöð marga tugi milljóna og því séu slíkar stöðvar settar upp til framtíðar en ekki sem tilraunaverkefni í örfá ár. „Með einni reglugerðarbreytingu er allt verðlaust,“ segir Eygló.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar, tekur í svipaðan streng en hann gagnrýnir stjórnvöld fyrir að staldra ekki við og athuga heildaráhrifin.