Verðum að draga úr ægivaldi lyfjaiðnaðarins

Steindór J. Erlingsson, líf- og vísindasagnfræðingur á ráðstefnu Félagsráðgjafafélags Íslands …
Steindór J. Erlingsson, líf- og vísindasagnfræðingur á ráðstefnu Félagsráðgjafafélags Íslands í morgun.

„Þunglyndi er helsta ástæða örorku í heiminum. Ástæðan getur ekki verið breyting á erfðamengi mannsins, það er stöðugra en það. Hluti skýringarinnar hlýtur að liggja í samfélagsgerðinni, samkeppni, einstaklingshyggju,“ sagði Steindór J. Erlingsson, líf- og vísindasagnfræðingur í erindi sem hann flutti á aðalfundi Félagsráðgjafafélags Íslands á Grand hóteli í morgun undir yfirskriftinni „Geisar þunglyndisfaraldur“.

Steindór sagði að líklegt væri að fjöldi þeirra sem greindust með geðraskanir myndi vaxa mjög á komandi árum. 

Frá 1990 hefur tíðni geðraskana næstum því tvöfaldast hér á landi og Steindór spurði hvers vegna hin mikla notkun geðlyfja hér á landi hefði ekki dregið úr tíðni örorku af völdum geðraskana.

Steindór sagði að læknisfræðin hefði vanrækt umræðu um mismunandi gerðir þunglyndis og að fólk brygðist misvel við lyfjagjöf eftir því hvers konar þunglyndi væri um að ræða. Einnig þyrfti að huga betur að áhrifum umhverfis á þunglyndi.

„Lyfjafyrirtækin hafa sætt sig við veika virkni þunglyndislyfja og að þau hafa engan hag af því að rannsaka undirgerðir,“ sagði Steindór. Hann sagði samskipti lækna við lyfjaiðnaðinn hafa áhrif á ávísanir þeirra og að tiltekinn menning væri ræktuð strax í læknadeild um samskipti lækna og lyfjaiðnaðarins.

Hann sagðist vera í samstarfi við tvo þingmenn, Eygló Harðardóttur og Margréti Tryggvadóttur um gerð frumvarps um samskipti lækna og lyfjafyrirtækja.

„Ef við ætlum að fara nýjar leiðir í meðferð geðsjúkdóma, þá verðum við að draga úr ægivaldi lyfjaiðnaðarins,“ sagði Steindór.

Lág félagsleg staða er áhættuþáttur

Hann talaði um rannsóknir sem miða að því að skýra hvers vegna einstaklingar með háa félagslega stöðu leiði til betri heilsu og lengra lífs. Þunglyndi og raskanir gæti orsakast af ytri þáttum eins og lágri félagslegri stöðu og því gæti verið vænlegra að fást við þær með breyttri félagsgerð en með lyfjagjöf.

„Eftir því sem ójöfnuður eykst verður erfiðara fyrir þá sem standa höllum fæti að halda í við samfélagið og vanlíðan allra eykst.“ 

Höfum kokgleypt bandaríska hugmyndafræði

„Einstaklingshyggjusamfélagið býr til félagslegt svöðusár og þessi þróun hefur gengið lengst í Bandaríkjunum og það kemur því ekki á óvart að tíðni geðraskana sé þar hæst í heiminum. Og við höfum kokgleypt þeirra hugmyndafræði þar sem verið er að lyfja félagsleg vandamál en ekki læknisfræðileg vandamál,“ sagði Steindór.

„Við þurfum að hugsa upp á nýtt hvernig samfélagsgerð við viljum búa við. Ójöfnuður er sundrandi og heilsuspillandi,“ sagði Steindór. „Allir hafa heilsufarslegan ávinning af auknum jöfnuði, ekki bara þeir fátæku.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert