Kynþáttahyggja í Negrastrákunum

Svona lítur forsíða Negrastrákanna út í íslensku útgáfunni, með teikningum …
Svona lítur forsíða Negrastrákanna út í íslensku útgáfunni, með teikningum eftir Mugg.

Heitar umræður spunnust árið 2007 um hvort endurútgáfa bókarinnar Negrastrákarnir, með teikningum eftir listamanninn Mugg, ætti rétt á sér. Kristín Loftsdóttir, prófessor í mannfræði, hefur rannsakað umræðuna og komst að því að innflytjendur á Íslandi eru sammála um að bókin lýsi fordómum, en innfæddir Íslendingar skiptust í tvær fylkingar og tóku mjög sterka afstöðu til þess hvort bókin fæli í sér fordóma eða ekki. 

Vísurnar um Negrastrákana eiga sér langa sögu og hafa verið gefnar út í fjölda Evrópulanda, en uppruni þeirra er bandarískur. Á frummálinu heita þær „Ten Little Niggers“ en sambærilegar vísur eru líka til um tíu litla indíána sem deyja einn af öðrum. Á Íslandi komu Negrastrákarnir fyrst út árið 1922. Vísurnar hafa síðan verið margútgefnar á hljómplötum og í bókum og til skamms tíma var vinsælt að íslensk börn færu með þær á skólaskemmtunum. 

Þær urðu hins vegar ekki umdeildar hér að neinu ráði fyrr en þegar þær voru endurútgefnar með viðhöfn 2007. Kveikjan að umræðunni þá var frétt um að foreldrar blandaðra og þeldökkra barna lýstu áhyggjum af því að bókin myndi auka fordóma og báðu um að hún yrði ekki lesin á leikskólum. Úr varð talsvert fjölmiðlafár og bloggheimar loguðu.

Keimlíkar skrípamyndir af svertingjum 

Í rannsókn sinni safnaði Kristín 101 bloggfærslu og athugasemdum við þær, skrifuðum á tímabilinu 22. október - 9. nóvember 2007 og greindi orðræðuna. Hún tók auk þess viðtöl við 27 innfædda Íslendinga, 7 „hvíta“ innflytjendur frá Evrópu og Bandaríkjunum og 20 afríska innflytjendur. Markmiðið var m.a. að skoða hvað umræðan segði um kynþáttahyggju í íslensku samhengi. Kristín kynnti niðurstöður rannnsóknar sinnar í dag á fundi Vísindafélags Íslendinga í Þjóðminjasafninu.

Í bókaformi hafa vísurnar iðulega verið myndskreyttar með svipuðum hætti, þar sem byggt er á skrípamyndum af svörtu fólki. Einkennin eru oftast þau sömu: Svertingjarnir eru teiknaðir með lágt enni, sem bendir til lágs greindarstigs, stórar rauðar varir og útstæð augu. Teikningar Muggs voru með sama yfirbragði og benti Kristín á það í dag að það væri t.d. sláandi að bera þær saman við hvernig Muggur teiknaði börn í sögunni af Dimmalimm.

Muggur dvaldi talsvert í New York áður en hann vann að teikningunum og sagði Kristín að þar hafi hann eflaust haft kynni af þessum birtingarmyndum kynþáttahyggjunnar sem var ríkjandi í byrjun 20. aldarinnar. Hann hafi þó í raun ekki þurft að leita svo langt eftir þessum fyrirmyndum, því hann bjó einnig í heimsborginni Kaupmannahöfn, þar sem sýningar á framandi fólki voru vinsælar í Tívolí. 

Saklausa Ísland

Af rannsókn Kristínar má ráða að það hafi einkum verið vegna teikninga Muggs, hins ástsæla listamanns, sem margir brugðust ókvæða við þegar Negrastrákarnir voru spyrtir saman við kynþáttafordóma. Þannig var ítrekað vísað í það í umræðunni að Negrastrákarnir gætu ekki lýst kynþáttafordómum, því bókin hefði tilfinningalegt gildi fyrir marga og væri hluti af íslenskri menningu. Kristín sagði áhugavert í sjálfu sér að bók sem er svo hnattræn gæti fengið slíka stöðu sem hluti af íslenskum menningararfi.

Þannig var að sögn Kristínar gegnumgangandi í umræðunni að reynt væri að skilja Ísland frá umheiminum, taka bókina úr því alþjóðlega samhengi sem hún tilheyrir og sveipa hana sveitarómantík. Eins og að umræðan um kynþáttahyggju í þessari barnabók, sem margir ættu hlýjar minningar um, ógnaði ímynd Íslands sem saklauss lands sem stæði utan við gróft kynþáttaofbeldi fyrri tíma. Kristín sagði að þetta endurspegli sambærilega umræðu í Skandinavíu, þar sem sé mjög sterk tilhneiging til að líta á nýlendutímann sem eitthvað sem komi Norðurlöndunum ekkert við. 

Barnaleg sýn á kynþáttafordóma

Þetta sagði Kristín hinsvegar að fæli í sér ákveðna afneitun á því að kynþáttahyggja sé enn hluti af samfélaginu. Margir „hvítir“ virðist líta svo á að kynþáttafordómar tilheyri fortíðinni, sem stangist á við frásagnir innflytjenda sem hafa upplifað þá á eigin skinni.

Allir viðmælendur Kristínar í rannsókninni sem voru af erlendum uppruna voru einróma um að Negrastrákarnir endurspegli augljósa kynþáttafordóma. Allir höfðu þeir upplifað einhverja fordóma af hálfu Íslendinga, en lögðu þó áherslu á að fordómar væru litlir hér á landi. Kristín sagði raunar að innflytjendur sem hún ræddi við hafi flestir farið í vörn fyrir Íslendinga í samtölunum. Þeir lýstu þeirri skoðun sinni að Íslendingar hefðu í raun fremur barnalega sýn á kynþáttafordóma og afstaða þeirra einkenndist frekar af fáfræði og skilningsleysi en hatri. Íslendingar ættu erfitt með að setja sig í samhengi við umheiminn. 

„Fyrir [Íslendingum] þýðir hugtakið „negri“ svartur Bandaríkjamaður. Þeir skilja ekki að það er þjáning, dauði og sársauki sem endurspegla það,“ sagði einn viðmælenda hennar.

Þess má svo geta að í dag, 21. mars, er alþjóðadagur gegn kynþáttamisrétti.

Ti små niggerbørn ásamt öðrum vísum í danskri útgáfu.
Ti små niggerbørn ásamt öðrum vísum í danskri útgáfu.
Sjö litlir negrastrákar í bandarískri útgáfu - og einn hjó …
Sjö litlir negrastrákar í bandarískri útgáfu - og einn hjó sjálfan sig í tvennt.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert