Björt og hlý helgi framundan

Göngutúr í vorveðri
Göngutúr í vorveðri Ómar Óskarsson

„Þetta eru ágætis hlýindi í kortunum," segir Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. Útlit er fyrir prýðisveður um mestallt land seinnipart föstudags og á laugardag, bjart og hlýtt miðað við árstíma. Því er um að gera að nýta tækifærið, því vorhret er vísast handan við hornið.

Nú þegar er byrjað að hlýna á sunnanverðu landinu miðað við síðustu daga og var hitinn kominn í um 10 stig nú síðdegis. „Hlýja loftið er ekki alveg komið norður yfir ennþá, það er enn um og yfir núllinu þar en þetta er að berast norður yfir heiðar svo þar ætti að hlýna í kvöld og um helgina verður hlýtt á öllu landinu,“ segir Haraldur. Þó ber að hafa í huga að hitatölurnar teljast góðar - miðað við mars. Veðurstofan gerir ráð fyrir hita á bilinu 6-12 stig að minnsta kosti, sem er ágætis hiti miðað við árstíma að sögn Haralds. 

Á morgun, föstudag, verður smávæta fyrripart dags suðvestanlands en styttir upp þegar líður á daginn. Á Norður- og Austurlandi léttir til og verður þurrt að mestu á morgun. Svipað veður verður á laugardag, hlýjast á Norður- og Vesturlandi og gert ráð fyrir þurru veðri, en sunnanlands má eiga von á rigningu undir kvöld á laugardag.

Árviss vorhret væntanleg

„Það fylgir nú oft smávæta hlýindum á þessum tíma, það kemur með lægðunum úr suðri. Á sunnudaginn verður svo talsvert meiri úrkoma,“ segir Haraldur. Hlýindin sem eru á leið yfir landið koma sunnan úr hafi. Hæð á Norðursjó og lægð suðvestan við landið koma saman og „dæla í sameiningu hlýrri sunnanátt hérna norður yfir land“, segir Haraldur. Föstudagur og laugardagur verða því bestu dagar helgarinnar miðað við þetta. „Ef menn vilja þurrt, þá er það besti tíminn.“   

Þeir sem þyrstir í útiveruna ættu því endilega að nýta tækifærið um helgina því ólíklegt er að hlýindin séu komin til að vera. Haraldur minnir á að meðalhitinn í mars er yfirleitt svipaður og í janúar og telst hann því í raun vetrarmánuður þótt margir séu farnir að hugsa til vorsins.  „Maður trúir nú varla öðru en að það komi bakslag. Það er nú bara rétt 22. mars og þessi vorhret eru árviss frameftir öllu vori. En einhverja daga á þetta að standa, eitthvað frameftir næstu viku.“

Veðrið verður fallegt um hádegisbil á laugardag.
Veðrið verður fallegt um hádegisbil á laugardag. Veðurstofa Íslands
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert