Ríkið greiði olíufélögum til baka

Olíufélögin
Olíufélögin mbl.is/Júlíus

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fellt úr gildi ákvörðun úrskurðarnefndar samkeppnismála í olíusamráðsmálinu upphaflega. Íslenska ríkinu er gert að greiða olíufélögunum til baka sektargreiðslur upp á 1,5 milljarð króna. Lögmaður Samkeppniseftirlitsins segir að málinu verði áfrýjað.

Um er að ræða hið upphaflega olíusamráðsmál en Samkeppnisráð ákvað 28. október 2004 að leggja sektir á olíufélögin Esso (Ker hf.), Olís og Skeljung, eftir rannsókn Samkeppnisstofnunar sem hrundið var af stað með húsleit, haldlagningu skjala og afritun tölvutækra gagna á starfsstöðum félaganna 18. desember 2001. 

Þeirri ákvörðun skutu félögin til áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sem kvað upp úrskurð í málinu 29. janúar 2005 og lækkuðu sektirnar í öllum tilvikum. Nefndin dæmdi olíufélögin til að greiða samtals 1.505 milljónir í sekt, sem þau greiddu með fyrirvara um lögmæti þeirra.

Félögin höfðuðu í kjölfarið mál og voru þau þingfest og sameinuð haustið 2005. Síðan þá hefur málið verið rekið fyrir Héraðsdómi Reykjaviḱur.

„Engum blöðum er um það að fletta, að þetta var ólögmætt samráð og eins alvarlegt og hægt er að hugsa sér. Það er ekki hægt að svindla meira á samkeppni en með samráði,“ sagði Heimir Örn Herbertsson, lögmaður Samkeppniseftirlitsins, við aðalmeðferðina. Hann benti á að brotin hefðu staðið yfir í níu ár, og olíufélögin hefðu enn „verið að hamast í samráðinu þegar samkeppnisyfirvöld hófu rannsókn sína“. Auk þess tók hann fram, að brotin hefðu ekki hætt þegar rannsóknin hófst heldur haldið áfram í fáein ár eftir 2001.

Fyrir það fyrsta fóru olíufélögin fram á að úrskurður áfrýjunefndarinnar yrði ógiltur, og var krafan sett fram á þeim grundvelli að málsmeðferð hafi farið gegn lögum, brotið hafi verið á andmælarétti og rannsóknarreglu. Varakrafa olíufélaganna var svo vegna fyrningar brota þeirra.

Þrautavarakrafan í málinu sneri svo að því að lækka bæri sektir sem lagðar voru á félögin verulega, s.s. vegna þess að Samkeppnisyfirvöldum hefði ekki tekist að sanna að olíufélögin ESSO, Olís og Skeljungur hefðu haft ávinning af samráði sínu. Einnig að beitt hefði verið röngum forsendum við útreikning auk þess sem mistök hefðu verið gerð við útreikninginn. 

Kemur verulega á óvart

Heimir Örn sagði eftir uppkvaðninguna í morgun að dómurinn kæmi sér verulega á óvart. Óumdeilt hafi verið í málinu að félögin höfðu með sér samráð. Hann hefði hins vegar ekki kynnt sér forsendur dómsins og gat því lítið tjáð sig um niðurstöðuna. Heimir sagði þó ljóst að málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert