Býr til gettó á landsbyggðinni

Vestmannaeyjar.
Vestmannaeyjar. mbl.is/GSH

„Ég held að með þessu sé landsbyggðin orðin hálfgert gettó innan Íslands. Fiskvinnslufólk og sjómenn koma til með að borga með sér til að fá vinnu. Það eru skilaboðin,“ segir Bergur Kristinsson, formaður Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Verðanda í Vestmannaeyjum, um fyrirhugaða hækkun veiðigjalds.

Fyrst afslátturinn, svo gjaldið

Bergur segir hækkun veiðigjalds munu vega að kjörum sjómanna.  

„Allir vita að krafa útgerðarinnar er að sjómenn greiði fyrir veiðigjaldið að hluta. Það er krafa LÍU. Það er ekki nóg með að sjómannaafslátturinn sé tekinn af okkur. Nú bætist þetta ofan á. Samningsstaða okkar er engin. Það er verið að grafa undan heilbrigðisstofnunum og ofan á það á að skattleggja landsbyggðina sérstaklega.

Ég er að lesa bók sem heitir Öreigarnir í Łódź eftir Steve Sem-Sandberg. Þessi umræða minnir mig á þá bók,“ segir Bergur og vísar til sögulegrar skáldsögu sem gerist í gettói gyðinga í pólsku borginni Łódź í síðari heimsstyrjöldinni.

„Af hverju á landsbyggðin að borga allt? Hvar varð hrunið? Það varð í Reykjavík. Af hverju eiga Vestmanneyingar og sjómenn að punga út öllum þessum peningum fyrir að vinna sína vinnu? Það er hlutur sem ég skil ekki. Veiðigjaldið er skattur á landsbyggðina,“ segir Bergur sem spyr hvers vegna slík gjaldtaka sé ekki viðhöfð í orkugeiranum.“ 

„Fara þeir í Hörpuna?“

„Ég vil nefna eitt sem dæmi þegar talað er um auðlindir. Af hverju er Orkuveita Reykjavíkur ekki skattlögð? Þetta er að mínu mati landsbyggðarskattur. Þetta er ekkert annað. Ef það á að sérskatta landsbyggðina endar það með hryllingi. Við getum ekki endurnýjað skipin okkar og við getum ekki gert eitt eða neitt. Hvert fara þessir peningar sem á að sérskatta okkur um? Fara þeir í Hörpuna? Veit einhver um það? Landsbyggðin getur ekki haldið Reykjavík uppi. Hvað myndi gerast ef fólk á landsbyggðinni tæki sig saman og legði niður vinnu? Landið færi beint á hausinn.“

20 ár eiga að duga

Fram hefur komið að miða eigi við 20 ára nýtingarrétt í frumvarpinu.

Bergur kveðst geta fallist á það. 

„Hann er í lagi. 20 ára nýtingarréttur á að duga til. Ef menn hafa fimm ár til að semja um framhaldið dugar það.“

Hann varar hins vegar eindregið við hugmyndum um leigupott. 

„Það á að stöðva það í fæðingu. Sú leið felur í sér að ríkið er að hirða peninga af sjómönnum.“

„Fráleit röksemd“ 

Bergur gefur lítið fyrir þau rök að byggðasjónarmið réttlæti leigupottaleiðina.

„Þetta er fráleit röksemd að mínu mati. Það verður að vera hagræðing í sjávarútvegi. Hann og áliðnaðurinn eru það eina sem stóð uppi eftir hrunið og hafa haldið Íslandi gangandi. Það er óumdeilanleg staðreynd. Ef ríkið ætlar að fara að taka að sér leigumiðlun með kvóta hefur barátta okkar verkalýðssamtaka gegn bruðli og sóun verið til einskis. Ég vil nefna sem dæmi að við töpuðum gríðarlega miklu á strandveiðum. Þær leiddu til fjórðungs verðlækkunar á þorski,“ segir Bergur.

mbl.is