Kaupmáttur svipaður og 2004

Biðröð við húsakynni Fjölskylduhjálpar Íslands.
Biðröð við húsakynni Fjölskylduhjálpar Íslands. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Á árinu 2011 voru rúmlega 40 þúsund eða 13,6% landsmanna undir lágtekjumörkum eða í hættu á félagslegri einangrun. Tekjur Íslendinga dreifðust jafnar árið 2011 en þær hafa gert síðan mælingar hófust með lífskjararannsókn Hagstofunnar árið 2004. Kaupmáttur er svipaður hér og árið 2004.

Til að falla í hóp þeirra sem eru undir lágtekjumörkum eða í hættu á félagslegri einangrun þurfa einstaklingar að uppfylla eitt eða fleiri af eftirtöldum skilyrðum: vera undir lágtekjumörkum, búa við verulegan skort á efnislegum gæðum eða búa á heimilum þar sem vinnuþátttaka er mjög lítil.

Eitt af fimm lykilmarkmiðum 2020 áætlunar Evrópusambandsins er að fækka þeim sem eru undir lágtekjumörkum eða í hættu á félagslegri einangrun.

Færri Íslendingar undir fátækramörkum en annars staðar

Árið 2010 var Ísland með lægsta hlutfallið meðal þeirra Evrópulanda sem standa að mælingunni. Mælingin byggist á þremur þáttum: heimilistekjum, vinnuþátttöku heimilismanna og hvað heimilin geta leyft sér af efnislegum gæðum. Hlutfall einstaklinga undir lágtekjumörkum var 9,2 en það hefur ekki mælst lægra.

Árið 2011 bjuggu 6% landsmanna á heimilum þar sem vinnuhlutfall var mjög lágt. Þeir sem búa við mjög lágt vinnuhlutfall skilgreinast þannig að þeir eru yngri en 60 ára og búa á heimilum þar sem heimilismenn á vinnualdri (18 til 59 ára samkvæmt skilgreiningu Evrópusambandsins) unnu minna en 20% af því sem þeir gætu unnið ef þeir væru allir í fullu starfi.

2% landsmanna bjuggu við verulegan skort í fyrra

Árið 2011 bjuggu 2% landsmanna við verulegan skort á efnislegum gæðum. Til að teljast búa við verulegan skort á efnislegum gæðum þarf að uppfylla fjögur af eftirfarandi atriðum; hafa lent í vanskilum með lán, hafa ekki efni á fríi með fjölskyldunni, hafa ekki efni á kjöt-, fisk- eða grænmetismáltíð annan hvern dag, geta ekki mætt óvæntum útgjöldum, hafa ekki efni á heimasíma eða farsíma, sjónvarpstæki, þvottavél, bíl eða nægjanlegri húshitun.

Af þeim Evrópuþjóðum sem framkvæma lífskjararannsóknina er lægst hlutfall fólks á Íslandi undir lágtekjumörkum eða í hættu á að lenda í félagslegri einangrun. Næstu þjóðir þar á eftir eru Tékkar, Norðmenn og Svíar. Þær þjóðir þar sem fólk lendir helst undir lágtekjumörkum eða í félagslegri einangrun eru Lettland, Rúmenía og Búlgaría.

Jafnari tekjudreifing en áður

Tekjur Íslendinga dreifðust jafnar árið 2011 en þær hafa gert síðan mælingar hófust með lífskjararannsókn Hagstofunnar árið 2004. Bilið milli tekjuhópa hefur minnkað verulega frá árinu 2009 og er tekjuhæsti fimmtungurinn nú með 3,3 sinnum hærri tekjur en sá lægsti. Til samanburðar var hlutfallið 4,2 árið 2009, segir í frétt á vef Hagstofu Íslands.

Ráðstöfunartekjur á neyslueiningu á föstu verðlagi miðað við vísitölu neysluverðs sýna að kaupmáttur er svipaður og hann var árið 2004 hjá öllum tekjuhópum. Á árunum 2004 til 2009 jókst kaupmáttur hjá öllum tekjuhópum, en mest í tekjuhæsta fimmtungnum. Jafnframt dróst kaupmáttur tekjuhæsta fimmtungsins meira saman en hjá öðrum árin 2010 og 2011.

Skýrsla Hagstofunnar í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert