Vilja meira samráð við þingið

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins á Alþingi.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins á Alþingi. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í utanríkismálanefnd Alþingis gagnrýndu það á fundi nefndarinnar í dag með Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra að ekki væri haft nægjanlegt samráð við Alþingi vegna umsóknarinnar um inngöngu í Evrópusambandið eins og gert væri ráð fyrir í áliti meirihluta nefndarinnar sem lagt var til grundvallar þegar sótt var um inngöngu sumarið 2009.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði ráðherrann meðal annars að því hver staðan væri varðandi mótun samningsmarkmiða Íslands í viðræðunum um inngöngu í Evrópusambandið til að mynda í peningamálum. Lagði hún áherslu á nauðsyn þess að Alþingi kæmi að mótun samningsmarkmiða landsins og að virkt samráð væri haft við þingið á öllum stigum í stað þess að það stæði einfaldlega frammi fyrir orðnum hlut.

Þingmaðurinn kallaði eftir því að fleiri gögn tengd málinu væru sett á netið og þannig gerð aðgengileg almenningi. Spurði hún sérstaklega um fundargerðir vegna funda Steingríms J. Sigfússonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, með ráðamönnum innan Evrópusambandsins á þessu ári. Í það minnsta væri æskilegt að utanríkismálanefnd væri upplýst um þau gögn.

Sagðist Össur ekki hlynntur því að setja slíkt efni á netið enda færu fram trúnaðarsamtöl á slíkum fundum. Mikilvægt væri að þeir sem íslenskir ráðamenn ræddu við gætu treyst því að trúnaður ríkti um þau samtöl og að þau væru ekki komin í fjölmiðla strax á eftir. Það væri líka ávísun á að menn ræddu málin á mun opinskárri hátt en ella.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert