Þingið á eftir að taka afstöðu

Bjarni Benediktsson
Bjarni Benediktsson mbl.is/Eggert

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi á Alþingi í dag að hvorki  meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar né þingið hefði tekið afstöðu til þeirrar spurninga um breytingar á stjórnarskránni sem lagt er til að þjóðin greiði atkvæði um.

Bjarni sagði að í reynd hefði engin efnisleg umræða farið fram á Alþingi um þær tillögur sem stjórnlagaráð hefði lagt fram. Ekkert lægi því fyrir um vilja þingsins um álitamál í þessu sambandi.

Bjarni sagði að búið væri að leggja fram miklar skýrslur um breytingar á stjórnarskrá. Margvísleg gagnrýni hefði komið fram á tillögur stjórnlagaráðs frá þeim sem beðnir voru um að gefa umsögn um tillögurnar. Það væri því ekkert því til fyrirstöðu að þingið sjálft tæki þessar tillögur til efnislegrar umræðu og legði fram tillögu um breytingar á stjórnarskránni.

Bjarni gagnrýni þær spurningar sem meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur lagt fram. Hann nefndi sem dæmi að ekkert lægi fyrir um hvernig ætti að túlka útkomu úr spurningu þrjú þar sem spurt væri um persónukjör. Að hans mati er spurningin óþörf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert