Landskjörstjórn gagnrýnir tillöguna

Landskjörstjórn leggur áherslu á að skýra þurfi betur tillöguna.
Landskjörstjórn leggur áherslu á að skýra þurfi betur tillöguna. mbl.is/Golli

Landskjörstjórn gerir verulegar athugasemdir við orðalag spurninga í tillögu um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs. Landskjörstjórn segir ekki hægt að útiloka hættu á ruglingi og leggur til að orðalagi verði breytt.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis sendi tillöguna til landskjörstjórnar til umsagnar. Í svari kjörstjórnar er vísað í lög um þjóðaratkvæðagreiðslur þar sem talað er um að skýrt komi fram á kjörseðli hvort kjósandi samþykki tillöguna. Vísað er í greinargerð með frumvarpi um þjóðaratkvæðagreiðslur þar sem segir að flóknar spurningar þar sem svarkostir eru fleiri eða spurningar settar fram með skilyrðum skapi hættu á ágreiningi um túlkun niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar og hvernig eigi að fara eftir henni.

Samkvæmt tillögu Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er fyrsta spurningin sem fyrirhugað er að leggja fyrir kjósendur: „Vilt þú að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá eftir að hún hefur verið yfirfarin með tilliti til laga og alþjóðasamninga?“

Að mati landskjörstjórnar er þessi spurning ekki nægilega skýr og vísar þá sérstaklega í síðasta hluta spurningarinnar, „eftir að hún hefur verið yfirfarin með tilliti til laga og alþjóðasamninga“. Landskjörstjórn leggur til að þessi hluti spurningarinnar verði felldur út.

Í tillögunni er gert ráð fyrir að kjósendur geti valið að svara spurningunum með valkostinum „tek ekki afstöðu“. Kjörstjórn leggur til að þessi valkostur falli út enda sé í lögunum talað um að svara eigi með já eða nei.

Landskjörstjórn bendir á að í spurningunni þar sem spurt er um afstöðu til þjóðkirkjunnar sé framsetning spurningarinnar sett fram með öðrum hætti en í öðum spurningum, þar sem hún sé sett fram með „neikvæðum hætti“. Ef „nei“ er valið sé ekki ljóst hver merking þess sé eða til hvers það leiðir. Landskjörstjórn leggur því til að þessari spurningu verði breytt og hún orðist þannig: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá Íslands verði ákvæði um íslensku þjóðkirkjuna?“

Landskjörstjórn gerir einnig athugasemd við spurninguna um hvort „persónukjör í kosningum til Alþingis [verði] heimilað í meira mæli en nú er? Kjörstjórn telur að orðalagið „í meira mæli en nú er“ sé fallið til að valda vafa, því ekki sé ljóst hvort kjósendur þekki núverandi reglur um kosningar til Alþingis.

Landskjörstjórn gerir einnig athugasemd við fimmtu spurninguna þar sem spurt er um ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Tillaga stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar

mbl.is