Þingmenn stjórnarandstöðunnar sakaðir um klækjabrögð

Jón Gunnarsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir og Bjarni Benediktsson, þingmenn Sjálfstæðisflokks.
Jón Gunnarsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir og Bjarni Benediktsson, þingmenn Sjálfstæðisflokks. Heiðar Kristjánsson

Fyrri umræðu um þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs lauk á þriðja tímanum í nótt. Málið gengur þó ekki til annarrar umræðu og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þar sem óskað var eftir atkvæðagreiðslu en þegar til hennar kom voru ekki nægilega margir þingmenn í þingsal. Mikil reiði var vegna þessa meðal stjórnarþingmanna sem boðaðir höfðu verið til atkvæðagreiðslunnar. Fundi var að lokum frestað til kl. 10.30.

Óskað var eftir atkvæðagreiðslu undir lok umræðunnar, um kl. 0.35, af Ragnheiði Elínu Árnadóttur, þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins, og var fundi þá fyrst frestað í fimm mínútur, síðan í fimmtán mínútur, tíu mínútur, svo aftur í fimmtán mínútur, því næst í tíu mínútur og svo í aðrar fimmtán mínútur. Ekki var gefin ástæða fyrir endurtekinni frestun en skömmu áður en Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti þingsins, frestaði fundinum í fyrsta skipti spurði hún Magnús Orra Schram, þingflokksformann Samfylkingarinnar, hversu margir þingmenn væru fjarverandi.

Skömmu fyrir klukkan tvö var fundi framhaldið. Téður Magnús Orri sagði þá, að á sama tíma og þingmenn stjórnarflokkanna voru boðaðir til að mæta og greiða atkvæði hefðu þingmenn stjórnarandstöðunnar yfirgefið þinghúsið. Sökum þess væru ekki nægilega margir þingmenn í þingsal til að atkvæðagreiðslan gæti talist lögmæt.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar voru sakaðir um fordæmalaus klækjabrögð í kjölfarið, og háttsemi þeirrar sögð með ólíkindum. Róbert Marshall, þingmaður Samfylkingarinnar, sagðist aldrei hafa upplifað annað eins, að mæta þingmönnum Framsóknarflokksins í anddyri þinghússins þegar hann mætti sjálfur, boðaður um miðja nótt.

Guðmundur Steingrímsson, utan flokka, mætti einnig í þinghúsið í nótt en hann sagðist hafa heyrt af atkvæðagreiðslunni fyrir tilviljun. Engin tilkynning hefði verið send frá þinginu um atkvæðagreiðsluna. Hann gagnrýndi þessi vinnubrögð harkalega og sagði ótækt að boðun þingmanna væri í höndum þingflokksformanna.

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, sagði í góðu lagi að óska eftir atkvæðagreiðslu þrátt fyrir að það sé um miðja nótt. Það væri í lagi ef sá hinn sami þingflokksformaður og óskaði eftir atkvæðagreiðslunni hefði ekki komið í veg fyrir það að kallaðir væru í hús þingmenn sama flokks, og þingmenn Framsóknarflokks læddust úr þinghúsinu á meðan. Hún sagði þetta fordæmalaust og að reynt væri að koma í veg fyrir lýðræðislega niðurstöðu.

Ragnheiður Elín kom sjálf í ræðustól og sagði ósk sína samkvæmt ákvæðum þingskapa. Þá hafi verið sent út tilkynning til þingmanna Sjálfstæðisflokks um að mæta til atkvæðagreiðslu. Illugi Gunnarsson, þingmaður sama flokks, staðfesti það síðar úr ræðustóli þingsins að hann hefði fengið tilkynningu með smáskilaboðum.

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, hvatti forseta Alþingis til að halda fundi áfram og taka fyrir næstu mál á dagskrá. Benti hann á að framsögumenn þeirra mála væru mættir í þingsal og því væri ekkert því til fyrirstöðu að hefja um þau mál umræðu. Við því var þó ekki orðið.

Svaraði athugasemdum í lokaræðu

Í lokaræðu fyrri umræðu sagði Valgerður Bjarnadóttir, að margt gott mætti um fyrri umræðuna segja, annað hefði ekki verið eins nytsamlegt en það væri eins og gengur og gerist. Hún svaraði nokkrum þeim athugasemdum sem gerðar voru í umræðunni, sem hófst um kl. 14 í gær.

Meðal þess sem Valgerður sagði, var að spurningarnar hefðu ekki verið unnar á handahlaupum. Þær hafi verið ræddar við sérfræðinga hvað efni varðar. Hins vegar hafi hún hlustað á nánast alla umræðuna og hafi hún leitt í ljóst að hugsanlega séð ráðlegt að breyta orðalagi spurninga. Hún benti á að málið sé rætt í tveimur umræðum, meðal annars til að læra eitthvað af fyrri umræðunni. Hún sagðist telja sig hafa lært eitthvað. Þá gangi málið til annarrar umræðu og þá geti menn lagt það fram sem þeir hafa lært.

Þá sagði Valgerður fullljóst, að ráðist verði í öfluga kynningu áður en þjóðaratkvæðagreiðslan fer fram. Ekki komi annað til greina en að leggja áherslu á öfluga og góða kynningu.

Bæði Birgir Ármannsson og Vigdís Hauksdóttir, þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, veittu andsvör við ræðu Valgerðar og efuðust um samráðið við sérfræðinga. Birgir fór einnig fram á það, að umræddir sérfræðingar verði leiddir fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefndina. Valgerður sagði það sjálfsagt. 

Frá fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.
Frá fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. mbl.is/Ómar Óskarsson
Þingsalur Alþingis.
Þingsalur Alþingis. mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert