Tveggja ára fangelsi fyrir barnsdráp

Hótel Frón við Laugaveg
Hótel Frón við Laugaveg Árni Sæberg

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Agné Krataviciuté í 2 ára fangelsi fyrir manndráp, með því að hafa fætt fullburða lifandi sveinbarn á einu baðherbergi Hótel Fróns, veitt drengnum tvo skurðáverka á andlit með bitvopni og banað honum síðan með því að þrengja að hálsi hans uns hann lést af völdum kyrkingar.

Sækjandi fór fram á 16 ára fangelsi, sem er hámarksrefsing fyrir manndráp. Hann taldi ekki að skilyrði væru fyrir hendi til að beita refsimildandi úrræðum. Verjandi Agné krafðist þess að hún yrði sýknuð, fyrst og fremst með þeim rökum að ásetningur hafi ekki verið til staðar og hún hafi verið í miklu áfalli á verknaðarstundu. Til vara fór hann fram á lágmarksrefsingu.

Dómurinn hefur enn ekki verið birtur en gera má ráð fyrir því, að dómurinn telji verknaðinn varða við 212. gr. alm. hegn. en þar segir: „Ef móðir deyðir barn sitt í fæðingunni eða undir eins og það er fætt, og ætla má, að hún hafi gert það vegna neyðar, ótta um hneisu eða sökum veiklaðs eða ruglaðs hugarástands, sem hún hefur komist í við fæðinguna, þá varðar það fangelsi allt að 6 árum.“

Agné var einnig dæmd til að greiða Deividas Marcinkevicius, barnsföður sínum, 600 þúsund krónur í miskabætur. Lögmaður hans sagði fyrir dómi að um alvarlegan verknað sé að ræða sem hafi valdið barnsföðurnum miklum miska, enda séu kringumstæður óhugnanlegri en orð fái lýst. Missir hans sé mikill og allt bendi til þess að hann muni bera andlegt tjón af þessum atburðum um ókomna tíð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert