Leggur fram frumvarp vegna kynáttunarvanda

Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra.
Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra. mbl.is/Kristján Jónsson

Velferðarráðherra, Guðbjartur Hannesson, hefur lagt fram frumvarp til laga á Alþingi um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda en markmið þess er að tryggja einstaklingum í þeirri aðstöðu jafna stöðu fyrir lögum á við aðra í samræmi við mannréttindi og mannhelgi eins og segir í frumvarpinu.

Frumvarpið er samið af nefnd um réttarstöðu transfólks sem skipuð var af velferðarráðherra í mars á síðasta ári en á meðal þess sem fram kemur í því er að starfandi skuli vera á Landspítala teymi sérfræðinga um kynáttunarvanda sem tilnefnt skuli vera af forstjóra sjúkrahússins.

„Hlutverk teymisins er að hafa umsjón með greiningu og viðurkenndri meðferð einstaklinga með kynáttunarvanda. Í teyminu skulu vera sérfræðingar á sviði geðlækninga, innkirtlalækninga og sálfræði. Teyminu er heimilt að kalla til aðra sérfræðinga sér til ráðgjafar og samstarfs,“ segir í frumvarpinu en einnig skuli skipuð sérfræðinefnd vegna kynáttunarvanda til fjögurra ára í senn.

Ennfremur segir að sá sem hlotið hafi greiningu og viðurkennda meðferð hjá áðurnefndu teymi Landspítala um kynáttunarvanda geti óskað eftir staðfestingu hjá sérfræðinefndinni um að hann tilheyri gagnstæðu kyni. Að uppfylltum skilyrðum staðfesti nefndin síðan að viðkomandi einstaklingur tilheyri gagnstæðu kyni.

Þá er einnig kveðið á um skyldu þess sem fær staðfestingu á breyttu kyni til þess að breyta um nafn hjá Þjóðskrá í samræmi við lög um mannanöfn sem og rétt einstaklings sem hlotið hefur slíka staðfestingu til þess að hverfa aftur til fyrra kyns óski hann þess.

Frumvarp velferðarráðherra í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert